Flugferðir verða dýrari

Greinar

Tímabundin einokun á millilandaflugi Íslendinga hófst í gær, þegar Flugleiðir tóku við leiðum, sem Arnarflug hafði haft til Amsterdam og Hamborgar. Nokkur hætta er á, að einokun þessi verði varanleg, því að Flugleiðir hafa óskað eftir að fá að vera einar um hituna.

Ráðamenn félagsins telja, að einokun auðveldi þeim að fá einokunarfélagið SAS til að kaupa hlutafé í félaginu, sem tapar mjög á Ameríkuflugi. Yrði flugið til Amsterdam í gær þá fyrsta skrefið til hægfara yfirtöku norræna félagsins á Íslandsflugi, í skjóli fjármögnunar.

Því miður er lítið hald í samkeppni, sem leiðir af gagnkvæmum loftferðasamningum. Á því sviði tefla erlend stjórnvöld fram gæludýrum sínum á borð við SAS og Lufthansa, sem árum saman hafa verið fremst flugfélaga í flokki hins illræmda IATA-einokunarhrings.

Ef Flugleiðir verða með allt millilandaflug, með smávægilegri viðbót frá flugfélögum á borð við SAS og Lufthansa, er 100% öruggt, að engin samkeppni verður, hvorki um verð né annað. SAS og Lufthansa hafa aldrei haft forustu um að lækka verð á neinni þjónustu.

Helzta von Íslendinga um lág fargjöld felst í, að eitthvert flugfélag utan IATA-einokunarhringsins sæki um flugleyfi hingað í skjóli þess, að einokunarfélag viðkomandi lands hafi ekki sýnt áhuga á að nýta sér réttinn, sem gagnkvæmir loftferðasamningar eiga að veita.

En ýmislegt má gera til að bregða fæti fyrir framtak af slíku tagi. Flugleiðir verða á vaktinni og reyna að fá systurfélög sín í einokunarhringnum til að taka upp þráðinn, ef eitthvert utangarðsfélag hyggst ógna Flugleiðum. Þá má þæfa málið og eyða því í ráðuneytum.

Ekki er vefengjanlegt, að starf Arnarflugs hefur haldið niðri verði Flugleiða á þeim leiðum, sem hafa verið í óbeinni samkeppni við leiðir Arnarflugs. Kílómetragjaldið á þeim leiðum hefur verið lægra en á hinum leiðunum, sem eru fjarri leiðum Arnarflugs.

Áhrif aukinnar einokunar munu þó ekki verða mest á þessu sviði, þar sem miðað er við full fargjöld. Fólk mun fljótlega finna, að fækka mun sérstökum tilboðum, sem verið hafa mjög algeng, og að tilboðin verða ekki eins hagstæð og þau hafa verið á undanförnum árum.

Þetta er ekki spá út í loftið, heldur fjallgrimm vissa, sem byggist á aldagömlum lögmálum samkeppni og einokunar. Það verður dýrara en áður að fljúga milli Íslands og annarra landa. Einkum mun fækka ódýrum tilboðum, sem hinir efnaminni hafa helzt notað sér.

Ráðherrar Alþýðubandalags hafa flýtt þessari þróun og nokkrum sinnum lagt lykkju á leið sína til að efla einokun í millilandaflugi. Það er skiljanlegt, því að þeir eru fulltrúar stjórnmálastefnu, sem vill, að athafnalíf sé ríkisrekið eða í austurþýzkum “kombínötum”.

Sjónarmið samkeppni í flugi hafa helzt haft hljómgrunn í Bandaríkjunum. Helmingi minna kostar að fljúga milli New York og Washington en kostar að fljúga nákvæmlega sömu vegalengd í Evrópu milli London og Frankfurt. Og helmings munur er enginn smámunur.

Heljargreipar einokunar í Evrópuflugi eru farnar að linast. Dómstóll Evrópubandalagsins hefur úrskurðað, að samkomulag flugfélaga um verð á flugleiðum stríði gegn Rómarsáttmála bandalagsins. Hagsmunaðilar heyja nú varnarstríð um málið að tjaldabaki í Bruxelles.

Svo kann að fara, að um síðir færi Evrópubandalagið okkur aftur samkeppnina og lágu fargjöldin, sem ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa verið að leika grátt.

Jónas Kristjánsson

DV