Flugið verði frjálst.

Greinar

Íslenzku flugi væri mjög í hag, að afnumin yrði öll einokun og ríkisaðstoð. Það yrði að vísu áfall fyrir Flugleiðir, en atvinna í flugi mundi ekki minnka. Hún mundi bara færast að einhverju eða öllu leyti til annarra félaga.

Forsendur þessarar skoðunar voru raktar í leiðurum Dagblaðsins í gær og í fyrradag. Þar var skýrt frá misjafnlega góðum rekstri bandarískra flugfélaga eftir tilkomu samkeppninnar og frá verðstríði annarra flugfélaga.

Einokunarsinnar Alþjóðasambands flugfélaga geta ekki gamnað sér við, að Laker Skytrain og fleiri slík fyrirtæki fari á höfuðið eða sjái að sér og lækki fargjöldin að ráði. Samkeppnin er komin og verður ekki aftur tekin.

Verðstríðið hefur leitt í ljós, að samband fargjalda og afkomu flugfélaga er afar óhreint. Félög dýrustu fargjaldanna lifa á ríkiskassanum á sama tíma og sum félög ódýrustu fargjaldanna skila hagnaði.

Í stórum dráttum má skipta flugfélögum heims í þrjá flokka. Það eru ríkisreknu eða ríkisstuddu félögin, hin hefðbundnu einkarekstrarfélög og svo loks hin nýju einkarekstrarfélög, sem hafa í lágum fargjöldum skotið hinum ref fyrir rass.

Evrópsku flugfélögin eru gott dæmi um ríkisrekstur, sem hefur hlaðið á sig gífurlegri fitu á kostnað flugfarþega og skattgreiðenda. Þau tapa peningum, þótt þau hafi hæstu fargjöldin. Þau eru baggi á viðkomandi þjóðum.

Ástæðuna er að finna í sjálfum ríkisrekstrinum. Tölur sýna, að ríkisrekin flugfélög eru tvöfalt verr rekin en einkafélög. Þau þurfa tvöfalt starfslið á hverja einingu farþegakílómetra. Einkum þurfa þau marga framkvæmdastjóra.

Amerísku flugfélögin, sem nú eru byrjuð að tapa peningum, eru dæmi um hinn hefðbundna einkarekstur. Þau söfnuðu á sig fitu á tímum samkeppnishafta og verðlagshafta og eiga nú erfitt með að megra sig í ört harðnandi samkeppni.

Erfingjar flugrekstrar í heiminum skipa hinn þriðja flokk flugfélaga. Það eru fyrirtæki á borð við Laker Skytrain, Air Florida og Peoples Express, sem hafa miklu grennri rekstur en hin hefðbundnu félög, svo sem rakið var í Dagblaðinu.

Laker á að vísu í erfiðleikum um þessar mundir vegna gengistaps af verðbreytingum dollars og punds. En engan bilbug er að finna á gróða Air Florida, sem býður lægstu fargjöldin yfir Atlantshafið.

Afleiðing verðstríðsins, sem þessi félög hafa efnt til, er, að flugfarþegum fjölgar gífurlega. Atvinna í flugi hefur því aukizt frekar en hitt. Hún færist bara frá hinum hefðbundnu flugfélögum til hinna nýju, sem flugið munu erfa.

Það, sem er að gerast þessi árin í fluginu, er hvorki meira né minna en alþjóðlegt Loftleiðaævintýri. Nýir menn hafa komið til skjalanna og fundið arðbærar leiðir til að veita almenningi ódýrt flug og flugfólki atvinnu.

Hið sama mundi gerast hér á landi, ef ríkið hætti skömmtun flugleyfa og veitingu aðstoðar. Með frjálsri samkeppni á leiðum innan lands og utan og með afnámi ríkisstyrkja mundi íslenzkt flug eflast og magnast um allan helming.

Að svo miklu leyti sem Flugleiðir gætu ekki grennt sig, mundu aðrir koma til skjalanna. Enda er fráleitt, að fargjald til Egilsstaða og til baka sé hið sama og milli London og Miami og að fargjald til London sé hið sama og kringum hnöttinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið