Flugstöðvar-gáleysi.

Greinar

Nokkuð er til í því, sem Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði um daginn, að ákvörðunin um byggingu hinnar hönnuðu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sé “stærstu fjárfestingarmistök, sem gerð hafa verið”.

Á hinum sama fundi í fyrrverandi utanríkismálanefnd sagði hann einnig, að “gáleysislega sé farið með fjármuni” í flugstöðvarmálinu. Hin síðari fullyrðing hans er áreiðanlega rétt, þótt hin fyrri sé líklega í stílfærðara lagi.

Að gáleysislega sé farið með fjármuni getur einnig verið skoðun þeirra, sem telja æskilegt að skilja milli borgaralegs og hernaðarlegs flugs á Keflavíkurflugvelli og að nýja flugstöð þurfi að reisa þar fyrr eða síðar.

Fáránlegt er, að flugstöð á Keflavíkurflugvelli skuli með tilheyrandi aðstöðu þurfa að kosta 2.100 milljónir íslenzkra króna á núverandi verðlagi, – miklu meira en kostar hringvegur með slitlagi umhverfis landið.

Þessi upphæð hlýtur að teljast gáleysisleg, enda þótt hlutur Íslands sé ekki nema 550 milljónir af allri upphæðinni. Aðeins sá hluti er svipaður og kostnaður við slitlag á þrjá fjórðu hluta hringvegarins um landið.

Heimsfrægur er fjáraustur og skortur á peningaaðhaldi hjá bandarískum yfirvöldum hermála. Þeim kann að finnast lítið mál að borga 1.550 milljónir íslenzkra króna fyrir treikvart flugstöð með tilheyrandi aðstöðu.

Íslenzka ríkið hefur hins vegar hugsað í smærri stíl og verður að gera það. 550 milljónir króna má nota til ýmissa hluta. Hér á landi verður að meta, hvað sé brýnast að gera fyrir þá peninga og hvort yfirleitt sé rétt að taka þá að láni.

Auðvitað er freistandi að hefja framkvæmdir í flugstöðinni við þær kringumstæður, að bandarísk stjórnvöld sjá hina gagnkvæmu hagsmuni í flugstöðinni og vilja taka þann fjárhagslega þátt í henni, sem samið hefur verið um.

Einnig er freistandi að þurfa ekki að borga fjórðung Íslands í flugstöðinni fyrr en um þær mundir, sem hún verður tekin í notkun, og geta meira að segja slegið fyrir hlutanum. En allar skuldir verður að greiða um síðir.

Flugstöðvarkostnaður mun ekki þvælast fyrir öðrum framkvæmdum á Íslandi næstu árin. Samt verður að meta, hvort flugstöðin verður brýnni en aðrar þarfir, þegar að því kemur, að íslenzka fjórðunginn verður að fjármagna.

Oft hefur verið bent á, að hin hannaða flugstöð er allt of dýr, þótt hún sé komin í smærri útgáfu en upphaflega var gert ráð fyrir. Íslenzkt millilandaflug þarfnast ekki 2.100 milljón króna flugstöðvar, hvorki nú né síðar.

Við megum ekki búast við miklum viðskiptum við erlendar risaþotur. Og við þurfum ekki að reka millilandaflugið á þann hátt, að allt sá á tampi í flugstöðinni í tvisvar tvo tíma á sólarhring og stöðin standi auð þess á milli.

Hins vegar þurfum við aðstöðu til að komast úr bíl inn í flugstöð og úr flugstöð upp í flugvél án þess að þurfa að mæta roki flugvallarins. Hin dýra flugstöð virðist ekki fullnægja þeim lágmarkskröfum til þæginda!

Það, sem þarf, er, að reiknuð verði ný flugstöðvaraðstaða, sem miðast við þarfirnar eins og þær eru í raun og veru, – og að hætt sé við að fara gáleysislega með peninga, hvort sem þeir eru íslenzkir eða bandarískir.

Jónas Kristjánsson

DV