Flúið á Volgubakka

Punktar

Menn verja oft lélegan málstað með því að fara að tala um annað. Það hét í gamla daga að fara austur á Volgubakka. Bush er vondur, segir einn. Annar svarar: Hvað með Pútín? Hann vill frekar tala um Pútín en um Bush, þótt sá síðari sé til umræðu. Í annarri umræðu segir einn: Ísrael fer illa með Palestínu. Annar svarar með því að segja: Af hverju talarðu ekki um, hversu illa Kína fer með Tíbet? Þannig geta þáttakendur í umræðum komið sér undan því að tala um það, sem er til umræðu. Í gamla daga fóru íhaldsmenn jafnan að tala um stjórnarfar Stalíns, ef kvartað var yfir stjórnarfari á Íslandi.