Flumbrugangsferill

Greinar

Mikið hefur farið fyrir Sverri Hermannssyni á því rúma ári, sem hann hefur verið menntamálaráðherra. Hann hefur staðið í ólöglegum húsakaupum og öðrum fyrirgreiðslum framhjá fjárlögum. Hann hefur margoft skipað í embætti gegn afstöðu ráðgefandi aðila.

Menntamálaráðherra á einkar erfitt með að fjalla um gagnrýni á hendur honum. Dæmigert svar hans er: “Ég þarf ekki að leita ráða hjá piltinum þeim.” Svör hans einkennast af strákslegu skítkasti, sem varðar ekki hið minnsta mál það, sem til umfjöllunar er.

Embættisferill Sverris einkennist af skyndilegum ákvörðunum, sem fylgja brak og brestir. Ekki er árangurinn í samræmi við fyrirferðina, svo sem dæmi Lánasjóðs námsmanna sýnir vel. Þar hefur ráðherranum lítt sem ekki gengið að koma fram áformum sínum.

Eitt fyrsta verk ráðherrans var að kaupa Mjólkursamsöluna undir þjóðskjalasafn, þótt nýlega væri búið að taka í því skyni á leigu húsnæði til tíu ára fyrir tvær milljónir á ári. Fyrst sagði hann, að leigumálið væri lygi, en varð síðan að viðurkenna, að satt væri.

Enginn hafði gefið ráðherranum heimild til þessara kaupa. Ekki heldur til kaupa á húsnæði fyrir Kvikmyndasjóð og tíu milljón króna lántöku sjóðsins. Hann sagði bara, að þetta þyrfti að gera. En það er svo margt, sem þarf að gera, en er ekki komið fremst í röðina.

Sverrir er einn af þeim, sem virðist halda, að valdið sé hans óskorað. Hann hefur engan skilning á lagaformum, sem til dæmis segja, að fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis. Hann uppfyllir hvorki skilyrði lagavirðingar né mannasiða til að vera ráðherra.

Ekki var ráðherrann lengi að reka þáverandi framkvæmdastjóra Lánasjóðs námsmanna fyrir afglöp, sem ekki hann, heldur stjórn sjóðsins hafði framið, og fyrir fjárskort, sem var Alþingi að kenna. Síðan urðu skattgreiðendur að borga stórfé í skaðabætur vegna Sverris.

Menntamálaráðherra fannst Lánasjóðurinn illa rekinn og hafði nokkuð fyrir sér í því. Afleiðingin af brauki og bramli hans er hins vegar þveröfug. Rekstrarkostnaður sjóðsins hefur vaxið hrikalega í ráðherratíð hans, mun meira en annarra opinberra stofnana á sama tíma.

Á starfsárinu hefur Sverrir komið fram af fullkominni fyrirlitningu gagnvart fyrirrennara sínum og flokkssystur, Ragnhildi Helgadóttur. Hann tók úr gildi reglugerð hennar um, að námsmenn skyldu ekki fá lán á fyrsta námsári og þyrftu ekki að vera í stéttarfélögum.

Fyrir réttu ári gaf ráðherrann út reglugerð um frystingu námslána, en varð síðan að lúta meirihlutavilja í pólitíkinni. Hann boðaði þá frumvarp, sem aldrei leit dagsins ljós, enda sagði hann síðan, að það væru getsakir einar, að hann hefði í huga breytingar á námslánum.

Enn heyrðust brak og brestir, þegar Sverrir kastaði fyrir Alþingi á næstsíðasta degi þess í vor ýmsum breytingatillögum í skýrsluformi. Var þeim illa tekið, enda sást, að svonefndar “getsakir” voru orðnar staðreynd og hann enn einu sinni orðinn ómerkur orða sinna.

Tvisvar í sumar varð ráðherrann að afturkalla nýjar reglugerðir um Lánasjóð námsmanna. Ekki kom því á óvart óðagotið milli jóla og nýárs, er hann kvaðst hafa náð samkomulagi um frumvarp um sjóðinn. Auðvitað fór allt aftur á hvolf, því orð hans voru marklaus.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að næstu ríkisstjórn, væri heppilegt, að hann endurskipaði ekki ráðherra, sem hefur annan eins flumbrugangsferil að baki.

Jónas Kristjánsson

DV