Frá Draflastöðum í Fnjóskadal um Vaglaskóg að Sörlastöðum í Fnjóskadal.
Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir menn og hesta.
Leiðin er um endilangan Fnjóskadal að austanverðu. Í Fnjóskadal er Vaglaskógur, einn stærsti upprunalegi skógur á Íslandi, en einnig eru þar Lundarskógur og Þórðarstaðaskógur. Dalurinn heitir eftir svokölluðum fnjóskum, sem eru þurrir og feysknir trjábútar. Ef lagðir eru saman Fnjóskadalur í miðjunni, Flateyjardalur að norðanverðu og Bleiksmýrardalur að sunnanverðu, er Fnjóskadalur langsamlega lengsti dalur landsins.
Förum frá Draflastöðum austur að Fnjóská og síðan norður með henni að vaði í syðri enda eyrar í ánni, eftir eyrinni endilangri og þar yfir á þjóðveg 835 um Fnjóskadal. Fylgjum veginum suður dalinn að Veisuseli. Þar förum við af veginum um hlið að slóð norður brekku niður að ánni. Síðan á bökkum árinnar alla leið að brúnni yfir Fnjóská. Við komum þar að girðingu með þjóðvegi 1 í Ljósavatnsskarði. Fylgjum girðingunni unz við komum að hliði, sem við förum um. Yfir þjóðveginn og meðfram girðingu handan vegar að þjóðvegi 836 upp í Vaglaskóg. Við förum þar upp brekku suðaustur að Hálsi og síðan suðvestur og fram á hálsinn við ána. Þar förum við út af vegi 386 og eftir skóginum til suðurs og síðan til vesturs upp brekkurnar að Vöglum. Þar höldum við áfram til suðurs um skógargötur niður að Mörk við Fnjóská. Síðan fylgjum við vegi suður Fnjóskadal í Þórðarstaðaskóg að brú á Fnjóská. Áfram höldum við austan árinnar meðfram jeppaslóð framhjá eyðibýlunum Belgsá og Bakkaseli og Bakka að Sörlastöðum í 240 metra hæð.
41,0 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.
Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Vaðlaheiði, Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Hellugnúpur, Gönguskarð vestra.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson