Samkvæmt nýrri reglugerð landbúnaðarráðuneytisins verður næsta haust bannað að selja hér á landi tilbúinn áburð, sem hefur meira en 10 millígrömm af kadmíum á hvert kíló af fosfór. Hingað til hefur lágmarkið hér verið 50 millígrömm og 50100 milliígrömm í Evrópu.
Þessi hertu mörk munu gera íslenzkan landbúnað vistvænni en hann hefur verið og afurðir hans hollari. Um leið fela þau í sér, að verið er að styðja innlendan áburðariðnað á kostnað landbúnaðarins, sem verður að greiða fyrir dýrari áburð en ella hefði verið.
Áburðarverksmiðjan hefur í vetur orðið að sæta samkeppni innflutnings á ódýrum áburði, sem stenzt gömlu 50 milliígramma kröfuna, en ekki nýju 10 millígramma kröfuna. Framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar stenzt hins vegar nýju 10 millígramma kröfuna.
Deila má um, hvort vegi þyngra í landbúnaðarráðuneytinu, viljinn til að styðja innlenda iðnaðarframleiðslu eða viljinn til að gera innlenda búvöru hollari. Algengt er, að þetta fari saman og hefur það víða um heim orðið ágreiningsefni í viðskiptum ríkja og ríkjasamtaka.
Til dæmis er flókið að meta, hvort andstaða Evrópusambandsins við innflutning erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum sé fremur heiðarleg umhyggja fyrir heilsu Evrópubúa eða öllu heldur tilraun til að útiloka samkeppni ódýrs innflutnings að vestan.
Hitt er óhætt að fullyrða, að ekki munu rætast yfirlýstar væntingar ráðuneytisins um aukið svigrúm til útflutnings landbúnaðarafurða og betra verð þeirra. Þær reglur, sem ráðuneytið setur um vistvæna framleiðslu hafa nákvæmlega ekkert gildi utan landsteinanna.
Hins vegar eru alþjóðlegir og fjölþjóðlegir staðlar um lífræna framleiðslu, sem gefur hærra verð en venjuleg framleiðsla. Í lífrænni framleiðslu er tilbúinn áburður alveg bannaður. Ráðuneytið hefur ekki gert marktækar ráðstafanir til að hvetja til slíkrar framleiðslu.
Yfirvöld landbúnaðarins í ráðuneyti og bændasamtökum hafa reynt að bregða fæti fyrir viðurkennda og vottaða framleiðslu lífrænnar búvöru hér á landi, af því að hún kostar miklar breytingar á framleiðsluháttum og leyfir engar ódýrar og séríslenzkar undanþágur.
Í staðinn eru yfirvöld að reyna að byggja upp sérstakar reglur um það, sem þau kalla vistvænan landbúnað. Reglurnar eru klæðskerasaumaðar fyrir landbúnaðinn eins og hann er, svo að kostnaður verði hóflegur. En reglurnar gilda því miður bara fyrir Ísland.
Auðveldara væri að trúa góðum vilja ráðuneytisins um bætta sambúð landbúnaðar við landið, ef það væri ekki bara að finna ódýrar lausnir, heldur styddi einnig tilraunir til að gera landbúnaðinn þannig, að hann standist alþjóðlega staðla um úrvals framleiðslu.
Út af fyrir sig er gott, að minna kadmíum verði hér eftir í áburði, sem notaður er á Íslandi. Enn betra væri, ef það væri ekki sértæk aðgerð, miðuð við sértæka hagsmuni, heldur liður í víðtækum aðgerðum til að gera landbúnaðarafurðir hollari en þær eru núna.
Tíminn mun leiða í ljós, hvort sinnaskipti hafa orðið í ráðuneytinu, hvort það hafi raunverulegan áhuga á að bæta sambúð landbúnaðarins við landið, hvort það vill til dæmis styðja framleiðsluaðferðir, sem fjölþjóðlegt samkomulag er um að fái verðmæta gæðastimpla.
Gæðastimplar, sem íslenzk yfirvöld hyggjast veita, hafa einir út af fyrir sig ekki markaðsgildi og gera lítið annað en að tefja fyrir, að alvörustimplar fáist.
Jónas Kristjánsson
DV