Ekkert er ríkinu fast í hendi nema sagan og kannski tungan. Fólk kemur og fer, fé kemur og fer og fyrirtæki koma og fara. Ef vel gengur, sogast fólk, fé og fyrirtæki inn í landið. Ef illa árar, flýr fólk, fé og fyrirtæki af landi brott. Ísland er bara brautarstöð í hringiðunni.
Þegar Íslenzk erfðagreining hóf rekstur hér á landi, tókum við allt í einu eftir því, að úti um heim var fullt af langmenntuðum Íslendingum, sem vildu koma heim að námi loknu, en fengu ekki fjárhagsleg færi á því, fyrr en þetta merkilega hálaunafyrirtæki var stofnað.
Því menntaðra og hæfara að öðru leyti sem fólk er, þeim mun betri kost hefur það á vali starfsvettvangs. Ef því geðjast ekki að tekjum eða öðrum aðstæðum hér á landi, sogast það annað, þar sem betur er boðið. Þetta er atgervisflóttinn, sem oft hefur hrjáð íslenzka ríkið.
Þýzka ríkið er fyrir sitt leyti orðið svo örvæntingarfullt, að það hefur sett í gangi ferli, sem miðar að því að soga til landsins tíuþúsund tölvumenntaða Indverja til að efla samkeppnishæfni þjóðfélagsins á tímum mikilla framfara í tölvutækni. Þetta er nýjung, markviss atgervissókn.
Fé leikur enn frekar lausum hala. Ef menn selja kvóta eða eignast mikið fé á annan hátt, reynist þeim létt að flytja peningana úr landi. Menn fjárfesta í erlendum rekstri og flytja síðan á eftir fénu, öðrum ríkjum til gagns, en íslenzka ríkið fær ekkert fyrir sinn snúð.
Stundum er þetta ferli beinna og einfaldara. Peningamenn setjast einfaldlega í helgan stein á einhverjum Bahama-eyjum nútímans og skilja ekkert eftir sig í upprunalandinu. Þeir gerast fyrrverandi Íslendingar og verða sem slíkir ekki lengur mjólkaðir af íslenzku ríkisvaldi.
Fyrirtæki fjárfesta í erlendum fyrirtækjum, dreifa rekstri sínum um víðan völl og flytja jafnvel höfuðstöðvar sínar milli landa. Íslenzk erfðagreining þarf ekki að flytja, því að þetta er bara heiti á rekstri bandaríska fyrirtækisins deCode Genetics, sem á heima í Delaware.
Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa flutt rekstrarafgang sinn til útlanda, styðja þar efnahagslífið og veita þar atvinnu. Tölvufyrirtæki eru komin með skrifstofur víða um heim og geta í einu vetfangi flutt höfuðstöðvar sínar þangað. Ríkisvaldið fær engu um þetta ráðið.
Fólk, fé og fyrirtæki gæta hagsmuna sinna í hringiðunni og þeir þurfa ekki að fara saman við hagsmuni ríkisvaldsins, sem eitt er staðbundið við Ísland og getur ekki flúið annað, ef illa árar. Ríkið þarf því að tefla skákina þannig, að fólk, fé og fyrirtæki vilji vera hér.
Ríkið þarf því að gæta hófs í álögum sínum, án þess að víkja frá velferðinni, sem er einn af hornsteinum þess, að fólki líði vel í siðmenntuðu þjóðfélagi hér á landi. Ríkið verður að velta hverri krónu fyrir sér og má til dæmis ekki sukka með peninga í smábyggðastefnu.
Sérstaklega er mikilvægt, að peningar ríkisins nýtist vel til að mennta unga fólkið feiknarlega mikið og vel, til að halda uppi góðu heilsufari í landinu og til að halda uppi ómenguðu umhverfi og ósnortnu víðerni. Allt slíkt stuðlar að því að halda fólki og fé og fyrirtækjum.
Þótt allt þetta verði vel og samvizkusamlega gert, heldur landið áfram að vera brautarstöð í hringiðunni. Ríkið getur aldrei lagzt á lárviðarsveigana. Gera verður ráð fyrir, að nánasti umheimur sé alltaf að bæta sig. Ríkið þarf því að hlaupa hratt, bara til að halda jöfnu.
Aðalatriðið er, að ríkið hætti gæluverkum sínum og beini atorku sinni fremur að því að láta fólki, fé og fyrirtækjum líða betur hér á landi en annars staðar.
Jónas Kristjánsson
DV