Fólkið kýs með fótunum

Greinar

Dæmi eru um, að auglýst hafi verið erlendis, að gott sé að fjárfesta á Íslandi, af því að launakostnaður sé hér heldur lægri en í öðrum vestrænum löndum, en starfshæfni manna svipuð eða betri. Þannig hefur til dæmis verið reynt að fá hugbúnaðargerð inn í landið.

Með þessu er verið að nota láglaunakerfið í landinu eins og söluvöru svo sem Japanir og síðar Suður-Kóreumenn höfðu áður gert. Þetta er ágæt aðferð til að ná tímabundnum árangri við að efla atvinnulífið. Með lágum launum verður það hæfara til fjölþjóðlegrar samkeppni.

Samkeppni þjóða um fjármagn til að byggja upp nýjar og arðvænlegar atvinnugreinar er hins vegar ekki eina samkeppnin, sem þarf að hafa í huga. Þjóðir eru ekki aðeins í samkeppni um fjármagn, heldur einnig um fólk. Það þarf bæði fólk og peninga til að búa til arð.

Oftast hefur verið einblínt á fjármagnið, af því að það er ekki eins staðbundið og fólk. Auðveldara er að flytja peninga frá stöðum, sem gefa lítinn arð, til staða, sem gefa mikinn arð, heldur en að flytja fólk milli staða af sama tilefni. En fólk greiðir þó atkvæði með fótunum.

Þannig urðu íslenzkar sveitir undir í samkeppni um fólk við sjávarplássin. Þannig eru lítil sjávarpláss að verða undir í samkeppni við stór sjávarpláss. Og þannig verður landsbyggðin í heild smám saman að láta undan síga í samkeppni við höfuðborgarsvæðið.

Þessir fólksflutningar innanlands raska ekki stöðu þjóðfélagsins gagnvart öðrum löndum, ef fólk léti við þá sitja. En það fer lengra. Fiskvinnsla á Jótlandi hefur dregið marga til sín. Öflugt velferðarkerfi á Norðurlöndum hefur einnig sogað Íslendinga yfir pollinn.

Ísland er sem ríki í samkeppni við önnur lönd um fólk. Sérstaklega er þessi samkeppni nærtæk á Norðurlöndum vegna samninga, sem gera Íslendingum tiltölulega auðvelt að fá vinnu í þessum löndum. Margt dugnaðarfólk hefur notað þetta og enn fleiri munu gera það.

Mesta samkeppnin um fólk mun verða af hálfu Noregs á næstu árum. Þar er mikill uppgangur vegna olíugróða. Þar er skortur á fólki til starfa og boðið upp á miklu hærri laun og miklu öflugra velferðarkerfi, að meira eða minna leyti vegna hagnaðar af olíuvinnslu.

Reynslan sýnir, að Íslendingar eiga auðvelt með að fá góða vinnu í Noregi. Margir munu á næstu árum hafna íslenzkri húsbréfaþrælkun á lágum launum og leita skjóls í þjóðfélagi, sem er fólki vinsamlegra. Þannig verður Ísland undir í samkeppni við Noreg um ungt fólk.

Við erum líka að verða undir í samkeppni við umheiminn um hæfileikafólk, sem er alþjóðlega samkeppnishæft. Við lesum vikulega um Íslendinga, sem hefur vegnað vel í hámenntastofnunum víða um heim og eru hvarvetna eftirsóttir vegna kunnáttu og atgervis.

Hér er hins vegar ekkert fyrir þetta fólk að gera, af því að landið hefur að mestu staðnað á frumframleiðslustigi, hefur ekki innviði atvinnulífs á sviðum þekkingargreina og getur ekki borgað samkeppnishæf laun. Verst er, að fáir láta sig þetta nokkru skipta.

Við þyrftum þó að skipta út undirmáls- og meðalmálsmönnum í stjórnmálum og fá í staðinn gerendur, sem treysta sér til að rífa niður verndarkerfi frumframleiðslu og fáokunar, kvótakerfi, byggðastefnur, einkaleyfi, tollmúra, reglugerðir og tilskipanir ráðuneyta.

Við þyrftum að hreinsa til, svo að grundvöllur sé fyrir samkeppnishæfni landsins um hvort tveggja, fólk og fjármagn. Annars verður allt landið að einum útnára.

Jónas Kristjánsson

DV