Fólk kvartar um lág laun, litlar tryggingabætur, hátt verðlag og segir ekki hægt að lifa í þessu landi. Það telur sig hafa verið svikið um eins konar rétt til aðgangs að velferðarríki, sem sjái því borgið frá vöggu til grafar. Það spyr síður um sínar eigin skyldur við þjóðfélagið.
Að baki kröfu fólks um velferð er misskilningur á eðli lýðræðisríkja. Þjóðskipulag okkar hefur ekki og á ekki að hafa réttindi að hornsteini, heldur skyldur. Lýðræði felur í sér, að almenningur tekur sjálfur ábyrgð af rekstri þjóðfélagsins úr höndum aðals eða einveldis.
Í reynd hafnar mikill fjöldi fólks að taka þátt í þessari ábyrgð. Það kvartar yfir stjórnmálamönnum og heldur samt áfram að kjósa þá. Það telur, að einhverjir aðrir en það sjálft eigi að reka þjóðfélagið og sjá um að halda uppi almennri velferð. Það segir pass í lífinu.
Fólk tekur ekki einu sinni ábyrgð á eigin heilsu. Það hegðar sér á heilsuspillandi hátt. Það reykir og drekkur og étur sykur. Það hreyfir sig ekki. Svo ætlast það til, að til skjalanna komi velferðarkerfi og hirði upp hræið til lyfjameðferðar og uppskurðar á sjúkrahúsum.
Að sjálfsögðu tekur þetta fólk ekki heldur neina ábyrgð á uppeldi barna sinna. Það heldur, að þjóðfélagið hafi sett upp skóla til að taka að sér barnauppeldi. Afskiptaleysið leiðir af sér agaleysi og körfuhörku nýrra kynslóða, sem láta teymast af síbylju og sápuóperum.
Ranghugmyndir um eðli lýðræðis og stöðu almennings í því þjóðskipulagi komu skýrt fram í Austur-Evrópu, þegar ríkin þar losnuðu undan oki kommúnismans. Almenningur stóð á gangstéttunum og klappaði fyrir komu vörubíla með sykurblönduðum koffíndrykkjum.
Þetta fólk hafði fengið þær ranghugmyndir úr vestrænu sjónvarpi, að vestrænt lýðræði fælist í gosdrykkjum og hamborgurum handa öllum, poppkorni og síbyljupoppi. Svo þegar ímyndin úr sjónvarpinu brást, fór fólk í fýlu og kaus aftur yfir sig gamla kommúnista.
Lýðræði er allt annað en sýndarveruleiki auglýsinga, vörukynninga og sápuþátta í sjónvarpi. Lýðræði er fyrirhöfn. Það krefst þátttöku fólks í að ákveða, hvernig þjóðfélagið sé rekið, svo að unnt sé að gera það að betri íverustað. Sumir taka þátt, en fleiri gera það ekki.
Margir detta alveg úr raunveruleikanum og lifa sig inn í sýndarveruleika sjónvarps, þar sem ofbeldi og kynórar ráða ríkjum í samfloti við auglýsingar og kynningar á meira eða minna óþarfri neyzlu. Vörumerki úr sjónvarpi koma í stað stjórnmálaflokka raunveruleikans.
Disneylöndum fjölgar og fólk skiptist í fylkingar eftir gosdrykkjum eða boltaliðum. Á meðan reyna einstaklingar og dagblöð að halda uppi vitagagnslausri umræðu um fiskveiðistjórnun, ríkisrekstur landbúnaðar og önnur atriði, sem geta ráðið úrslitum um velferð fólks.
Því fleiri sem segja pass, þeim mun meiri líkur eru á, að þjóðskipulag lýðræðis grotni að innan. Valdir eru lakari stjórnmálamenn en ella, pólitísk umræða verður minni, rekstur þjóðfélagsins óskynsamlegri og velferð fólks að sjálfsögðu langtum minni en ella væri.
Napurt er, að þetta skuli gerast um leið og vestrænt lýðræði hefur unnið sigur á kommúnisma og ógnar stöðu annarra menningarheima á borð við íslam. Sigrum út á við fylgja ósigrar inn á við. Menn eru að breytast úr borgurum í neyzludýr, sem búa í sýndarveruleika.
Neyzlu- og sjónvarpsþrælar og fylgismenn vörumerkja verða svo að taka því sem hverju öðru hundsbiti, að lífskjör þeirra geta ekki fylgt sýndarveruleikanum.
Jónas Kristjánsson
DV