Fölsuð Atlaskort

Hestar

Atlaskortin á nýja geisladiskinum koma hestamönnum ekki að því gagni, sem forstjóri Landmælinganna fullyrti í viðtali við Eiðfaxa í vor. Þau sýna ekki landið eins og mælingamenn herforingjaráðsins danska sáu það. Að geðþótta hafa verið felldar brott ótal reiðleiðir, þar á meðal sumar þær frægustu og greinilegustu, svo sem vesturbakkar Þjórsár, sem eru fjölfarnir enn þann dag í dag. Þar sem ég er orðinn kunnugur í Hrunamannahreppi, komst ég að raun um, að meirihluti reiðleiða hreppsins hefur verið strikaður út, þar á meðal leiðin frá Núpstúni um Sólheima, Hörgsholt og Kaldbak í Kluftir. Óskiljanlegt er, að stórfé sé varið af almannafé í ódýrar eftirlíkingar frá ýmsum tímum. Diskurinn falsar útlit landsins eins og það var á tímum mælinganna og eins og það er að töluverðu leyti enn þann dag í dag. Hestamenn verða áfram að nota dönsku frumútgáfuna á pappír. Svei Landmælingunum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi, 10.tbl. 2003