Fönn

Frá Þuríðarstöðum í Eyvindardal í Fagradal um Fönn til Neskaupstaðar í Norðfirði.

Mikilúðlegt útsýni er ofan af Fönn. Fannardals er getið í Droplaugarsonasögu. Þaðan er svonefndur Fannardalskross frá miðöldum. Til skamms tíma var meiri jökull á Fönn og þá var oft erfitt að fara þar yfir með hesta. Árið 1865 lentu þrír ferðamenn í hríð og grófu sig í fönn. Á þriðja degi komust tveir þeirra til byggða, en einn varð úti. Frægt er, þegar rúmlega tvöhundruð sláturfjár var rekið yfir heiðina haustið 1932, en það gekk slysalaust.

Förum frá Þuríðarstöðum suðaustur Tungudal og upp úr Urð í dalbotni á Urðarflöt á Eskifjarðarheiði. Þar sveigjum við austur og upp á Fönn í 1000 metra hæð norðan Fannarhnúks . Þaðan förum við áfram austur með Norðfjarðará niður Fannardal að brúnni á þjóðvegi 92 yfir ána. Skammt er þaðan austur í Neskaupstað.

22,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Eskifjarðarheiði, Búðará, Viðfjörður, Drangaskarð, Helgustaðaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins