Fordómar stofnunar

Punktar

Þegar ég hef lítið að gera, freistast ég til að lesa tilkynningar, sem hanga uppi á opinberum stöðum. Umhverfisstofnun hefur athyglisverða áminningu á sundstöðum. Þar er gert upp á milli þjóða. Allar eru þær hvattar til að þvo sér án sundfata, en síðan skilja leiðir. Danir eru svo hreinlátir, að þeir þurfa ekki fleira. Íslendingar og Bretar eru sóðalegri að mati hinnar ágætu stofnunar og verða að þvo sér “vandlega”. Það þurfa Frakkar og Þjóðverjar líka að gera, en þurfa að “nota sápu” að auki. Fróðlegt væri að frétta af þeim rannsóknum á mismunandi hreinlæti, sem þessi áminning endurspeglar.