Forganga í stað sporgöngu.

Greinar

Aðþrengdar iðngreinar eru í vaxandi mæli að reyna að koma því á framfæri, að tryggja beri innlendri framleiðslu forskot umfram erlenda keppinauta. Málmiðnaðurinn er nýjasta og alls ekki eina dæmið um þessa viðleitni.

Rökstyðja má, að skylda beri útboðsaðila til að taka innlendu tilboði, ef mismunur þess og erlends fer ekki fram úr einhverju ákveðnu marki.

Menn greinir hins vegar á um, hversu breiður þessi munur megi vera. Einnig má rökstyðja, að vernda beri innlenda framleiðslu fyrir erlendum undirboðum, einkum ef þau stefna að því að vinna markaðinn, ryðja keppinautum úr vegi og hækka síðan verðið í skjóli síðar fenginnar einokunar.

Um leið er þessi verndarhugsun afar hættuleg. Enda er þegar farið að brydda á því hugarfari, að betra sé að vernda vinnu í gamalli og ofsetinni atvinnugrein heldur en að starfsfólk í henni missi atvinnu sina.

Aðgerðir, sem hyggjast á þessari hugsun, leiða til dulbúins atvinnuleysis um leið og þær draga úr straumi fólks og fjármagns til þeirra atvinnugreina, sem hafa á hverjum tíma mestan vaxtarbrodd, mestan arð og mesta framlegð til þjóðarhags.

Við sjáum slíkar aðgerðir hvarvetna í nágrannalöndunum. Þar eru veittir aðlögunarstyrkir, vaxtaeftirgjafir, útflutningsstyrkir, þjálfunarstyrkir, flutningastyrkir, jöfnunarstyrkir og fjárfestingarstyrkir.

Slíkar aðgerðir sjáum við líka hér í hinum hefðbundna landbúnaði. Við verjum meira en tíunda hluta sameiginlegra ríkisútgjalda til að halda uppi úreltum atvinnuvegi og hindra krafta hans í að beinast að öðrum verkefnum.

Í Noregi er ekki aðeins landbúnaðinum haldið úti á þennan hátt, heldur einnig sjávarútvegi. Hið opinbera greiðir sem svarar öllum launum í sjávarútvegi. Þar eru það olíulindirnar, sem standa undir kostnaði við byggðastefnu.

Í Svíþjóð, Bretlandi og víðar halda skattgreiðendur uppi ýmsum greinum málmiðnaðar, einkum þar sem samkeppni er orðin of mikil, svo sem í skipaðsmíðum. Margar fleiri greinar ramba á brún náðarfaðms hins opinbera.

Þjóðir þessara landa hafa það sér til afsökunar, að atvinnuleysi er þar mikið og vaxandi, víða komið í eða upp fyrir 10%. Þar er því fremur ólíklegt, að starfsfólk hallærisgreina geti fengið vinnu við arðbær störf.

Um leið búa þessar þjóðir sér til vítahring. Með kjarkleysi og óhóflega félagslegri hugsun hafa þær veikt hag sinn og samkeppnisaðstöðu gagnvart öðrum, sem óhræddari hafa verið við hreyfiaflið í atvinnulífinu.

Bezt sett væri sú þjóð, er hefði ráð á að draga úr starfsemi sinni á öllum þeim sviðum, sem leggja til offramleiðslu á heimsmarkað. Er hefði sem kaupandi ráð á að nota sér undirboð og meðgjafir, sem fylgja offramleiðslu hinna.

Slík þjóð hefði ráð á að hasla sér jafnan völl í vaxtargreinum, í nýjungum, – yfirleitt í greinum, þar sem verðlag á heimsmarkaði stjórnast meira af seljendum en kaupendum. Slík þjóð væri í senn djörf og raunsæ.

Utan verkfalla er ekki atvinnuleysi á Íslandi. Sú sérstaða gefur okkur betri færi en öðrum á að loka eyrum fyrir beiðnum um styrki og verndun og opna augun fyrir nauðsyn þess að búa í haginn fyrir hið nýja og óþekkta.

Jónas Kristjánsson.

DV