LANDSFUNDUR Sjálfstæðisflokksins er viðurkenndur performans, einnig af andstæðingum flokksins. Þetta er ekki bara samfellt halelúja, þótt öll umgerðin kalli á hópefli af tagi fjölmennra safnaða í Bandaríkjunum. Inn á milli er fólk að reyna að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
ÞANNIG TÓKST að fá landsfundinn til að styðja bílastyrki handa öldruðum og öryrkjum, sem ríkisstjórnin hafði ákveðið að leggja niður. Það er í landsfundum dálítið magn af jafnaðarstefnu, sem hefur raunar fylgt Sjálfstæðisflokknum frá ómunatíð.
MARGIR SEGJA, að landsfundir Sjálfstæðisflokksins séu hápunktar lífs þeirra, mesta upplifun þeirra og skemmtun. Enginn flokkur getur státað af þvílíkum samkomum, þar sem menn koma út úr helginni forkláraðir í framan með hjartað fullt af hugsjónum.
SAMFARA UPPREISNUM hér og þar í nefndum og ræðustólum ríkir fortakslaus dýrkun á liðnum og nýjum leiðtogum. Þetta er fyrst og fremst leiðtogaflokkur, sem ræður sér leiðtoga til að hugsa fyrir flokkinn og afla honum fylgis. Því fylgir auðvitað taumlaus dýrkun.
NÚ ER DAVÍÐ farinn og Geir tekinn við með aðstoð Þorgerðar. Smám saman munu samgönguleiðir í forustunni breytast, því að samkvæmt ritúalinu ræður Geir einn. Sumir millistjórar munu smám saman hverfa í skuggann og aðrir rísa upp. Það er ekki lengur nóg til framgangs að hringsnúast kringum Davíð.
FORMANNASKIPTI í Sjálfstæðisflokknum jafngilda nýrri stefnuskrá í öðrum stjórnmálaflokkum. Nýjum manni fylgja nýir tímar, því að hver formaður í foringjaflokki neyðist til að vera einræðisherra. Eins og Mussolini eða Berlusconi.
DV