Formannafrumvarpið má bæta

Greinar

Opin og hálfopin prófkjör hafa aukið lýðræði innan stjórnmálaflokkanna, sem þeim hafa beitt. Í sumum tilvikum hafa nýir og ferskir menn komizt til áhrifa, en í öðrum hafa gamalgrónir þingmenn haldið velli.

Í lýðræðislegum flokkum er ekki lengur unnt að neita almennum stuðningsmönnum um prófkjör. Dæmið frá Vestfjörðum sýnir, að menn sætta sig ekki við, að slíkum málum sé ráðið í fámennisstjórnum. Slíkt leiðir til sérframboða.

Hins vegar eru prófkjör engin allra meina bót. Þeim fylgir umstang og kostnaður og ekki sízt sárindi, sem síðan hafa áhrif á samstöðu flokksins í kosningunum. Og einstöku sinnum er þeim spillt með þáttöku annarra flokka manna.

Oft hefur verið bent á, að bezta leiðin til að nýta kosti prófkjöra og draga úr göllum þeirra, er að sameina þau sjálfum kosningunum. Það má gera með þeirri reglu, að listar flokkanna séu óraðaðir, svo að persónuval sé gert kleift.

Jón Skaftason flutti slíkt frumvarp á þingi fyrir sex árum. Í vetur hefur Magnús H. Magnússon tekið upp merkið ásamt tveimur öðrum þingmönnum Alþýðuflokksins. Frumvarp hans mætti gjarna samþykkja með nýjum kosningalögum.

Með óröðuðum listum og persónuvali er persónulegt átak margra frambjóðenda á einum lista sameinað í eitt flokksátak, án þess að sumir séu í fýlu. Og menn, sem styðja aðra flokka, geta ekki haft afskipti af persónuvalinu.

Niðurstaða frumvarpsgerðar formanna um kjördæmismál er fremur lítil og léleg. Hún yrði bætt verulega og raunar gerð þolanleg, ef frumvarp Magnúsar yrði einnig samþykkt, og komið á persónuvali innan ramma framboðslistanna.

Sanngirni í garð aldraðra.

Eftirágreiðsla skatta veldur fólki afar miklum erfiðleikum, ef það vill eða verður að draga saman segl tekjuöflunar. Þyngst lendir þetta á fólki, sem er að ljúka starfsævinni. Það á hreinlega ekki fyrir sköttum fyrsta eftirlaunaárið.

Mörg dæmi eru um, að aldraðir hafi slitið sér út við vinnu löngu eftir að eðlilegum starfstíma er lokið. Önnur dæmi eru um, að þeir hafi orðið að selja húsnæði sitt til að hafa ráð á að setjast í helgan stein.

Albert Guðmundsson alþingismaður hefur ásamt þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram frumvarp um að brúa þetta bil, meðan staðgreiðslukerfi skatta hefur ekki verið tekið upp. Samkvæmt frumvarpinu fá aldraðir helmings skattaafslátt í eitt ár.

Ef frumvarp Alberts og félaga verður að lögum, geta menn setzt í helgan stein á eftirlaunaaldri án þess að sæta röskuninni, sem felst í greiðslu fullra skatta af skertum tekjum. Þetta er augljóst sanngirnis- og réttlætismál.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að þeir, sem vilja vinna lengur, geti frestað skattaafsláttarárinu fram að þeim tíma, er þeir kjósa að setjast í helgan stein. Þetta valfrelsi skapar heilsugóðu fólki eðlilegt svigrúm.

Fyrir löngu er orðið tímabært að leysa þennan vanda. Ekki ætti að þurfa um það langar umræður á alþingi. Þótt skammt sé til þingslita, á að vera nægilegt svigrúm til að samþykkja svona einfalt mál, svo sem mælt hefur verið með af hálfu fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV