Sveitarfélögin um miðbik Snæfellsness hafa gefið út ferðakort, þar sem merktar eru allar reiðleiðir af gömlu herforingjaráðskortunum. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur gefið út ferðakort, þar sem merktar eru fornar reiðleiðir umhverfis jökulinn.
Þessi kort eru dæmi um breytt viðhorf í garð hestamanna, svipuð og komu fram í viðtölum síðasta tölublaðs Eiðfaxa við landverði og skálaverði. Staða ferðamanna á hestum hefur batnað verulega. Við erum ekki lengur taldir vera drykkfelldir sóðar, heldur áhugamenn um útivist og náttúru, svo og viðskiptavinir í héraði.
Hestaferðamenn njóta stuðnings margra þeirra, sem hafa það hlutverk að efla ferðaþjónustu í héraði. Þeir sjá, að hestamenn eru viðskiptavinir, sem kaupa næturbeit, gistingu og uppihald og segja þannig frá ferðum sínum, þegar heim er komið, að fleiri fylgja í kjölfarið.
Í sama tölublaði Eiðfaxa kom fram sú skoðun Sigurðar Líndal lagaprófessors, að reiðleiðir herforingjaráðskortanna, sem teiknuð voru í upphafi 20. aldar, njóti lagaverndar samkvæmt gömlum og nýjum lögum. Þar kom einnig fram, að þessar leiðir eru í kortagrunni Landmælinganna, þótt þær hafi ekki verið sýndar á nýjum kortum.
Að þessum upplýsingum fengnum er æskilegt, að samtök hestamanna taki upp þráðinn, hafi samband við ferðamálastofnanir einstakra svæða og bendi þeim á að taka upp gamlar reiðleiðir á ýmis sérkort, sem þær láta teikna fyrir ferðamenn. Þetta mun festa leiðirnar betur í sessi.
Einnig er æskilegt, að Landssamband hestamanna fari að beita fyrir sig samkomulaginu við Vegagerðina frá 1982, þar sem gert var ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið í staðinn af nýbyggingarfé bílvegarins, en ekki af takmörkuðu reiðvegafé.
Landssambandið hefur síðustu árin fremur kosið að einbeita sér að því að reyna að byrja á núllpunkti í samstarfi við skipulagsyfirvöld og vinna að fjáröflun til reiðvega í sérstakri reiðveganefnd, sem hafði þó það vegarnesti, að ekki mætti veita meira fé til reiðvega.
Tilraunir til að fara í kringum veganestið fóru út um þúfur, en fulltrúi fjármálaráðuneytisins benti í staðinn á áðurnefnd samkomulag frá 1982. Sú reynsla gefur Landssambandinu ástæðu til að endurskoða stefnu sína á þann hátt, sem hér er lýst.
Meðbyr reiðleiða og reiðvega er meiri í þjóðfélaginu en verið hefur um áratuga skeið. Mikilvægt er, að forustumenn hestamanna taki það með í reikninginn. Hefðin og rétturinn er okkar, en ná stundum ekki fram að ganga.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 8.tbl. 2003