Forréttindavernd

Greinar

Verndun forréttinda er rauði þráðurinn í athöfnum ríkisstjórnarinnar. Hún mætir samdrætti með því að slá skjaldborg um velferðarkerfi forréttinda í efnahagslífinu og ræðst með þeim mun meiri þunga að velferðarkerfi þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Íslenzkir aðalverktakar munu áfram mega stunda hermang í ríkisstjórnarskjóli. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir, að ekki verði hreyft við því rotna kerfi næstu árin. Ekki er stefnt að því að leggja hermangið niður, heldur hleypa fleiri peningamönnum í það.

Flugleiðir munu áfram mega stunda sína einokun á beztu flugleiðum innan lands og utan. Þær munu áfram mega hrekja flugfélög af Keflavíkurvelli með einokun sinni á flugafgreiðslu. Þær munu áfram fá að stjórna Flugráði og þenja sig út í ferðamálum landsins.

Hinn hefðbundni landbúnaður fær á þessu ári töluvert aukinn hlut af ríkisútgjöldunum. Þetta er sagt vera gert í hagræðingarskyni eins og hefur verið sagt svo oft áður. Aukin peningabrennsla í landbúnaði skýrir ein allan samdrátt í heilbrigðis- og skólamálum.

Munur þessarar og næstu ríkisstjórna á undan henni er, að þessi hefur spyrnt við fótum og stöðvað hægfara þróun eins áratugar í átt til markaðsbúskapar, sem hófst með svokölluðum Ólafslögum Jóhannessonar árið 1979, þegar komið var á raunvöxtum fjárskuldbindinga.

Raunvextirnir drápu versta forréttindafyrirtæki landsins, Samband íslenzkra samvinnufélaga, og leiddu mikla grósku í atvinnulífið. Lán voru ekki lengur gjafir til gæludýra, heldur varð að nota þau í arðbær verkefni, sem gátu staðið undir verðtryggðum lánum.

Með aukinni þátttöku í vestrænu viðskiptasamstarfi neyðast stjórnvöld til að láta kyrrt liggja, þótt erlend fyrirtæki komi inn á markaðinn til hagsbóta fyrir neytendur. Það hefur gerzt í tryggingum og gerist vonandi fyrr eða síðar í stöðnuðu bankakerfi landsins.

Ríkisstjórnin getur til langs tíma ekki verndað fáokun í bönkum, tryggingafélögum, olíufélögum og skipafélögum, af því að hún er bundin erlendum samningum. En hún gerir sitt ýtrasta til að vernda einokun eins og dæmi Íslenzkra aðalverktaka og Flugleiða sýna.

Sala ríkisfyrirtækja er sama marki brennd. Fordæmið er Bifreiðaeftirlitið, sem breytt var í rándýrt einkafyrirtæki, Bifreiðaskoðun Íslands, sem hefur einokun á sínu sviði. Við búum ekki við einkavæðingu markaðsbúskapar, heldur einkavæðingu einokunarbúskapar.

Þannig verður Sementsverksmiðjan seld. Tækifærið verður ekki notað til að hefja frelsi í sementsverzlun, heldur verður peningamönnum afhent sementseinokun, sem ríkið hefur nú. Afleiðingin verður stórhækkun á verði sements eins og varð á skoðun bifreiða.

Hefðbundin frjálshyggja í efnahagsmálum gerir ráð fyrir, að losað sé um höft, svo að samkeppni aukist til hagsbóta fyrir neytendur. Ráðgerð einkavæðing af hálfu ríkisstjórnarinnar fylgir ekki þessu lögmáli, heldur miðar að aukinni misnotkun á opinberum höftum.

Ekki er rúm fyrir lítilmagnann í þessu velferðarkerfi stórfyrirtækja og landbúnaðar, sem rekið er hér á landi. Þess vegna er fjár aflað í stóraukinn ríkisrekstur landbúnaðar með því að skera niður við trog velferðarkerfi almennings, einkum heilbrigðismál og skólamál.

Núverandi ríkisstjórn er ein mesta afturhaldsstjórn, sem verið hefur við völd í mannsaldur. Hún er eins konar fornleif frá einokunartíma 18. aldar.

Jónas Kristjánsson

DV