Forréttindi úrskurðuð óheimil

Greinar

Hæstiréttur hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að Alþingi hafi verið óheimilt að gefa sægreifum einum aðgang að auðlindum hafsins. Hæstiréttur segir í nýjum úrskurði, að þessi mismunun sé stjórnarskrárbrot. Hún brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Hefðbundið er, að Hæstiréttur styðji málstað stjórnvalda gegn smælingjum. Upp á síðkastið hefur hann stundum verið gerður afturreka með slíkt fyrir fjölþjóðadómstólum í Evrópu. Úrskurðurinn bendir til, að hann vilji ekki lengur sitja í skammarkróknum.

Niðurstaðan er mikið áfall fyrir Alþingi, bæði þegar framsal auðlinda var upphaflega ákveðið af ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks og svo aftur nýlega, þegar hnykkt var á því af núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Áfall núverandi Alþingis er þó meira, því að nýju lögin voru sett eftir mikla umræðu um stjórnarskrána og réttlætið í þjóðfélaginu, en í gamla daga vissu menn síður, hvert þeir voru að fara. Núverandi Alþingi átti að vita, að sægreifalög þess voru stjórnarskrárbrot.

Ef Alþingi bregzt ekki vel og skjótt við úrskurði Hæstaréttar, má búast við, að landsmenn allir fari smám saman hver fyrir sig að höfða mál gegn ríkinu til þess að fá hver sinn hluta í þjóðareign fiskimiða. Þingið verður talið ábyrgt fyrir öllum uppákomum af því tagi.

Óhjákvæmilegt er, að Alþingi taki ólög sín til endurskoðunar nú þegar og láti flest annað sitja á hakanum á meðan. Ef það vill halda lífi í kvótakerfinu, ber því að finna skömmtunarleið, sem ekki tekur sérhagsmuni sægreifa fram yfir hagsmuni annarra landsmanna.

Bezta leiðin til varðveizlu kerfisins er auðvitað sú, sem margir hafa oft sagt, að veiðikvótarnir verði boðnir út og allir hafi jafnan rétt til að bjóða í þá. Þar með er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar höfð í heiðri og engum pólitískum gæludýrum afhent neitt á silfurfati.

Útboð veiðileyfa er í senn réttlætismál í samræmi við stjórnarskrána og hagkvæmnismál í samræmi við vestræn markaðslögmál. Veiting einkaleyfa og sérleyfa af hvers konar tagi hefur í meira en tvær aldir verið talin úrelt hagstjórnartæki á Vesturlöndum.

Hæstiréttur gefur stjórnvöldum svigrúm til að finna almenna lausn á hneykslismáli sínu. Í úrskurðinum er ekki sagt, að sækjanda málsins, Valdimar Jóhannessyni, skuli afhentur umbeðinn kvóti, heldur aðeins, að synjun ráðuneytisins hafi verið stjórnarskrárbrot.

Forvígismaður einkaleyfa og sérleyfa, hinn síreiði forsætisráðherra, hefur þegar séð fyrir sér, að fara megi undan dómi Hæstaréttar í flæmingi með því að hafa lögin um forréttindi sægreifa tímabundin og framlengja þau eftir þörfum, svo að þau teljist ekki varanleg.

Hagsmunagæzluflokkar sægreifanna munu beita öllum finnanlegum undanbrögðum til að komast hjá málefnalegum viðbrögðum við úrskurði Hæstaréttar. Fyrstu ummæli forsætisráðherra benda til, að áherzla verði lögð á að finna leið, sem varðveiti forréttindin.

Samt segir Hæstiréttur beinlínis, að ólögin felist í, að réttur þeirra, sem áttu skip á öndverðum níunda áratugnum sé annar en hinna, sem áttu þau ekki. Erfitt verður fyrir forsætisráðherra og aðra hagsmunagæzlumenn sægreifanna að snúa út úr þessum orðum.

Hæstiréttur hefur nefnilega upplýst, að gæzlumenn sérhagsmuna geti ekki tekið þjóðareign og afhent gögn og gæði hennar fámennum hópi gæludýra.

Jónas Kristjánsson

Þau leiðu mistök urðu í leiðara fimmtudags, að vitnað var í ónafngreindan varaþingmann Framsóknarflokks á Austfjörðum en átti að vera fyrrverandi varaþingmann Alþýðubandalags. Er beðizt velvirðingar á þessu víxli.

DV