Forseta ber að forðast deilur

Greinar

Sem forseti Íslands gagnrýndi Vigdís Finnbogadóttir ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína fyrir þremur árum fyrir að setja Kínastjórn úrslitakosti um að fara að reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur. Forsetinn taldi þetta vera stríðsyfirlýsingu.

Þessi gagnrýni forsetans var röng og bar vitni um dómgreindarbrest, enda var hún gagnrýnd í leiðara þessa blaðs og víðar. Forsetinn hafði gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli á alþjóðavettvangi og lagt lóð sitt á vogarskál gegn mannréttindum.

Forseti Íslands var á þessum tíma aðili að víðtækum undirlægjuhætti ráðamanna á Íslandi gagnvart Kínastjórn, þar sem í fararbroddi voru þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra okkar. Þá höfðu menn fengið glýju í augun af stærð og veldi Kína.

Afskipti þáverandi forseta Íslands af kvennaráðstefnunni í Kína mörkuðu þáttaskil í viðhorfum til hennar sem forseta. Sumir, sem jafnan höfðu stutt kosningu og endurkosningu hennar, sögðu, að nú væri hún búin að sitja of lengi. Enda bauð hún sig ekki fram aftur.

Nú hefur nýr forseti gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli um Íslenzka erfðagreiningu. Á Hólahátíð þjóðkirkjunnar á sunnudaginn sagði Ólafur Ragnar Grímsson frumvarp ríkisstjórnarinnar um einkarétt þess fyrirtækis vera “þröngt og ófært einstigi”.

Fyrrverandi forseti fór í slaginn til stuðnings valdhöfum okkar, en núverandi forseti fer í hann gegn valdhöfunum. Fyrrverandi forseti hafði efnislega rangt fyrir sér, en núverandi forseti hefur efnislega rétt fyrir sér. Að öðru leyti eru málin af svipuðum toga.

Til langs tíma er skaðlegt, að sjálft sameiningartákn þjóðarinnar taki þátt í umræðu um viðkvæm deilumál, hvort sem þeir hafa rétt eða rangt fyrir sér og hvort sem þeir styðja valdhafana eða ganga gegn þeim. Slík málsaðild skaðar stöðu forsetans í þjóðfélaginu.

Auðvelt var að komast að þessari niðurstöðu á sínum tíma, þegar forsetinn var hlaupinn í björg með tröllum. Það er erfiðara nú, þegar forsetinn er að vara okkur við tröllunum. Eigi að síður verður að hafna aðstoð forsetans í frumvarpsmáli Íslenzkrar erfðagreiningar.

Þetta er ekki spurning um, hver hafi vald á málinu og hver ekki. Óumdeilanlegt er, að við búum við þingstýrt ráðherralýðræði, þar sem forsetinn tekur engar ákvarðanir, sem máli skipta. Þetta er spurning um, hvort forsetinn geti verið þátttakandi í opinberri umræðu.

Fyrstu forsetar Íslands gættu þess vel að halda einingu um embættisfærslu sína með því að lýsa ekki persónulegum skoðunum á umdeildum málum. Afskipti fyrrverandi forseta af kvennaráðstefnunni í Kína voru alger og óskiljanleg undantekning frá þeirri reglu.

Núverandi forseti hefur áður þreifað á þátttöku í opinberri umræðu, meðal annars með því að hvetja til aukinna útgjalda til vegagerðar í Barðastrandarsýslu. Nú hefur hann stigið skrefinu lengra og er kominn á miðjan vígvöll helzta ágreiningsefnis þjóðarinnar.

Verst er fordæmisgildið. Með því að bjóða ágreining um embættisfærslu forsetans er verið að breyta því í framtíðinni, hverjir sækist eftir embætti forsetans og hvernig þeir gegni því. Það er til langs tíma verið að gera embættið pólitískara en það hefur verið.

Þótt þjóðin vilji nú samkvæmt skoðanakönnunum hlaupast í björg með tröllum, er það ekki hlutverk forsetans að snúa henni á slóðina til byggða.

Jónas Kristjánsson

DV