Forsetar dæmdir

Greinar

Tveir fyrrum forsetar Suður-Kóreu hlutu í vikunni dóma fyrir alvarleg afbrot í starfi, annar tveggja áratuga fangelsisdóm fyrir milljarðastuldi og hinn líflátsdóm fyrir milljarðastuldi og fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Dómarnir marka tímamót í stjórnmálasögu nútímans.

Báðir komust þeir til valda sem hershöfðingjar og notuðu þau til að gera það, sem slíkir eru vanir, til að drepa fólk og raka að sér peningum. Glæpamenn í einkennisbúningi hafa verið og eru enn ein algengasta tegund forráðamanna lands og lýða víðast hvar um heim.

Er þeir hafa sums staðar hrökklazt frá völdum, hafa þeir ekki verið látnir standa reikningsskil gerða sinna. Það var aðeins gert í Þýzkalandi og Japan eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Síðan hafa menn komizt upp með ótrúlegasta athæfi án þess að bera á því ábyrgð.

Tilraunir til að koma lögum yfir þá hafa hingað til verið vægar. Oft hefur verið gripið til heildarnáðunar þeirra og handbendanna. Þannig var það í Argentínu. Annars staðar ganga glæpamennirnir lausir og halda jafnvel opinberum embættum, svo sem Pinochet í Chile.

Mest hefur verið um þetta í löndum rómönsku Ameríku, sem löngum hafa sveiflazt milli herforingja- og lýðræðisstjórna. Afríka er ekki komin á það stig enn. Þar eru yfirleitt glæpamenn enn við völd. Suðaustur-Asía er nú í sviðsljósinu vegna dómanna í Suður-Kóreu.

Þjóðir megna ekki að koma sér í hóp vestrænna lýðræðisríkja og ná fram varanlegum markaðsbúskap í atvinnulífi, nema farið sé að lögum og rétti og gerðar upp sakirnar við fortíðina. Traustar leikreglur í lagaramma eru forsenda þess, að markaðsbúskapur blómstri.

Suður-Kórea er komin yfir vatnaskilin. Dómarnir yfir forsetunum fyrrverandi eru staðfesting þess. Landið er að gera upp reikningana við fortíðina og feta sömu slóð og Vesturlönd á síðustu öld. Geðþótti einstaklinga verður að víkja fyrir formlegum leikreglum, skráðum á blað.

Vel er við hæfi, að íslenzk viðskiptanefnd er einmitt í Suður-Kóreu um þessar mundir. Reikna má með, að slakað verði á innflutningshöftum þar í landi. Valdamenn þar munu átta sig á að gengi landsins fer eftir gagnkvæmri aðild þess að frjálsum heimsviðskiptum.

Suður-Kórea er eins líklegur viðskiptavinur Íslands í náinni framtíð og einræðis-, spillingar- og ofbeldisríkið Kína er ólíklegur viðskiptavinur. Stjórnvöld Íslands hafa nuddað sér mikið utan í Kína, en þeir, sem hafa reynt að reka þar viðskipti, hafa lent í ótal hremmingum.

Kaupsýslumenn hneigjast til að rangtúlka harðhent stjórnvöld sem áreiðanleg. Sagan sýnir hins vegar að menn tapa fremur fé á viðskiptum við ríki harðstjóra en á viðskiptum við losaraleg lýðræðisríki, þar sem sumt rekur á reiðanum og annað gengur á afturfótunum.

Mikilvægt er, að land sé byggt á lögum en ekki á geðþótta. Ekki er síður mikilvægt, að gerð sé upp fortíðin. Það gerðu Þjóðverjar rækilega eftir síðari heimsstyrjöldina, enda hefur þeim farnazt vel. Þannig mun Suður- Kóreumönnum einnig farnast vel í framtíðinni.

Rafmagnað andrúmsloft var í Seoul, er dómarnir höfðu verið kveðnir upp. Fólk áttaði sig skyndilega á, að lýðræði var komið til að vera þar í landi. Stelsjúkir og morðhneigðir valdhafar um allan heim fundu til réttmæts ótta um að hljóta einnig makleg málagjöld.

Vonandi minna dómarnir vestræna ráðamenn á, að verstu glæpamennirnir í Bosníu og Serbíu ganga enn lausir, þótt unnt sé að hafa hendur í hári þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV