Í beinni útsendingu frá blaðamannafundi fyrir helgina rak dauðadrukkinn forseti Rússlands utanríkisráðherra landsins úr embætti og réð hann aftur daginn eftir á flugvellinum í Moskvu, einnig í beinni útsendingu frá blaðamannafundi, illa haldinn af langvinnri ofdrykkju.
Síðan hefur forsetinn leikið hlutverk fíflsins vestur í Bandaríkjunum, þar sem hann sótti valdsmannaþing Sameinuðu þjóðanna og hitti Bandaríkjaforseta. Þar hefur forseti Rússlands velkzt um, útblásinn og þrútinn og tínt af sér fúla brandara drykkjusjúklings.
Heita má, að síðustu misserin sjáist ekki til forsetans öðruvísi en timbraðs, drukkins eða kófdrukkins á almannafæri. Þetta ástand er honum og Rússlandi til vansæmdar. Enn verri eru þó áhrifin, sem þetta óeðlilega ástand hlýtur að hafa á stjórn erfiðra Rússlandsmála.
Þessi fyrrverandi þjóðhetja Rússlands hefur misst tökin á stjórn landsins og hrekst úr einu víginu í annað undan andstæðingum sínum. Flestir umbótamennirnir í kringum hann eru horfnir á braut eða búa við skert áhrif, en gagnslausir jámenn eru setztir í stólana.
Svo djúpt er Rússland sokkið, að foringi lífvarðar forsetans er orðinn annar valdamesti maður landsins út á það að hjálpa forsetanum í rúmið á morgnana og sinna öðrum þörfum drykkjurútsins. Þekkt er í mannkynssögunni, að lífvarðarforingjar stjórna fyrir róna.
Umbætur eru um það bil að fjara út í Rússlandi. Glæpaflokkar hafa sig æ meira í frammi og hafa tekið við raunverulegri stjórn mála á ýmsum sviðum. Rússneska mafían veldur vaxandi áhyggjum á Vesturlöndum vegna mikilla umsvifa og óvenju grófra vinnubragða.
Greinilega kom fram í eftirleik átakanna í Tsjetsjeníu fyrr á þessu ári, að forsetinn réði ekki við málið, þannig að forsætisráðherra landsins varð að lokum að grípa í taumana. Enda má ljóst vera, að sídrukkinn forseti getur ekki brugðizt skynsamlega við uppákomum.
Undir stjórn Jeltsíns hefur Rússland orðið að óróaafli í umheiminum eins og Íran eða Írak eða Kína. Það sáir til vandræða í ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi og á Balkanskaga. Það er orðið illa útreiknanlegt og óvinsælt og nýtur ekki nauðsynlegs stuðnings að utan.
Í stað þess að nota pólískan mátt Rússlands til að búa til valdamikla virðingarstöðu þess á fjölþjóðlegum vettvangi, fær þessi máttur í vaxandi mæli útrás á neikvæðan hátt og leiðir ekki til þeirrar virðingar og áhrifa, sem efni ættu að standa til við eðlilegar aðstæður.
Verst er tilhugsunin um, að það er annað mesta kjarnorkuveldi heimsins, sem hefur fordrukkinn forseta með puttana við atómstjórntöskuna og getur hleypt af stað kjarnorkustríði í óráði og minnisleysi. Þess vegna er nauðsynlegt að vekja athygli á ástandi forsetans.
Áfengi hefur löngum verið flótti Rússa frá vandamálum líðandi stundar. Þar í landi er ríkjandi rótgróin linkind gagnvart geigvænlegum afleiðingum almennrar ofdrykkju á öllum stigum þjóðfélagsins. Þar í landi er alger róni talinn nothæfur sem æðsti maður ríkisins.
Vestrænir fjölmiðlar taka á máli þessu með silkihönskum og stuðla þannig að þeirri sjálfsblekkingu margra Rússa, að þjóðarlöstur þeirra sé frambærilegur og að þolanlegt sé að hafa drykkjurúta í æðstu embættum. Betra er að tala hreint og skiljanlega um vandamálið.
Það er botnlaus niðurlæging fyrir Rússland að forseti landsins skuli vera róni, sem veltist blindfullur um heiminn, útblásinn og þrútinn af langvinnum ólifnaði.
Jónas Kristjánsson
DV