Davíð Oddsson forsætisráðherra tók skynsamlega ákvörðun, þegar hann tilkynnti á þriðjudaginn var, að hann byði sig ekki fram til embættis forseta. Raunar hefði hann gjarna mátt taka þessa ákvörðun miklu fyrr, því að óvissan hafði truflað framboðsmál annarra.
Með skjótari ákvörðun hefði forsætisráðherra líka losnað við áfall af völdum skoðanakönnunar, er sýndi lítið fylgi hans, minna en sumir aðrir hafa haft, sem ekki voru búnir að staðfesta framboð sitt. En það er vandmeðfarin list að reyna að tímasetja atburðarás.
Um nokkurra áratuga skeið hefur verið haft fyrir satt, að þjóðin vilji ekki virka stjórnmálamenn í embætti forseta Íslands. Ásgeir Ásgeirsson var eina undantekningin, enda var hann boðinn fram gegn sameiginlegum frambjóðanda tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna.
Af reynslunni má ráða, að þjóðin vilji, að forsetinn sé vammlaus, eins og hún vill, að biskupinn sé vammlaus. Þetta sjónarmið getur verið fjötur um fót umdeildra stjórnmálamanna, sem telja eðlilega, að þeir eigi að hafa sama rétt og aðrir til að verða forseti Íslands.
Auðvitað geta stjórnmálamenn verið vammlausir, þótt þeir séu umdeildir. En það lítur óneitanlega einkennilega út, þegar stjórnmálamenn koma beint frá fúlu orðbragði illvígra deilna inn í friðsælt skógræktarhjal forsetaefna og láta jafnvel mynda sig undir lestri Passíusálma.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur einn umdeildasti stjórnmálamaður landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, feikilegt fylgi sem forsetaefni. Ef fylgið skilar sér allt á kjördegi, hefur rækilega afsannazt kenningin um, að þjóðin vilji ekki pólitíska slagsmálamenn í starfið.
Það, sem haft er fyrir satt, að þjóðin vilji, þarf ekki að vera satt. Með framboði Ólafs Ragnars reynir á þá kenningu, að umdeildir stjórnmálamenn geti ekki bætt forsetaembættinu á langa röð virðingarembætta. Þetta eitt gerir framboð hans sérstaklega spennandi.
Kynningin á framboði hans bar eins og gull af eiri kynninga annarra frambjóðenda. Ef munur fagmennsku og kunnáttuleysis verður áfram með slíkum hætti, flýgur hann til Bessastaða. En það er einmitt í fagi almannatengsla, sem stjórnmálamenn geta haft forskot.
Stjórnmálamaður getur bætt sér það upp með fagmennsku í almannatengslum, sem hann missir af völdum umdeildrar valdsmennsku. Kannski eru stjórnmálin ekki sama bannorðið í forsetavali og þau hafa hingað til verið talin. Ef til vill eru skilaboð kjósenda önnur.
Hugsanlegt er, að þjóðin hafi hingað til ekki verið að hafna stjórnmálamönnum sérstaklega, heldur verið að hafna því, að digrir stjórnmálaflokkar segi henni fyrir verkum, þegar forseti er kjörinn. Það gæti til dæmis skýrt kosningu Ásgeirs Ásgeirssonar í embætti forseta.
Samkvæmt þessari kenningu telur þjóðin sig eiga frí, þegar hún velur sér forseta. Hún lætur segja sér fyrir verkum í stjórnmálum, starfi og leik. Hún kemur raunar fyrir sem óvenjulega undirgefin þjóð. Þegar kemur svo að forsetavali, neitar hún að þiggja vel meint ráð.
Reyndir menn hafa það að leiðarljósi í væntanlegum forsetakosningum, að þjóðin muni sjálf finna sér forseta hjálparlaust og að það geti aðeins haft öfug áhrif að reyna að segja henni fyrir verkum. Þessir sömu menn eru af sömu ástæðu andvígir þjóðaratkvæðagreiðslum.
Hver fer að verða síðastur að tilkynna framboð. Línurnar eru að skýrast og óákveðnum fækkar. Varla er rúm fyrir fleiri en einn frambjóðanda í viðbót. Eða engan.
Jónas Kristjánsson
DV