Forstjórahappdrættið

Greinar

Þegar spádeildarstjóri Veðurstofunnar var skipaður fyrir allmörgum árum, var ráðherra stofunnar úr Framsóknarflokknum. Hann hafði ekki úr vöndu að ráða og tók helzta framsóknarmann stofunnar fram yfir helzta alþýðubandalagsmann hennar, að hefðbundnum hætti.

Sömu menn voru síðan í framboði til Veðurstofustjóra nokkrum árum síðar. Þá hafði taflið snúizt við. Alþýðubandalagsmaður var ráðherra stofunnar. Hann valdi þann, sem tapað hafði í fyrra skiptið, auðvitað alþýðubandalagsmanninn, að hefðbundnum hætti.

Nú hefur enn verið skipað í þessa stöðu. Enn var í framboði framsóknarmaðurinn, sem var heppinn í fyrsta skiptið og óheppinn í annað. Nú er alþýðuflokksmaður ráðherra stofunnar. Hann skipaði þekktan alþýðuflokksmann í embættið, að hefðbundnum hætti.

Þessi saga er spegilmynd íslenzkra stjórnmála. Flokkarnir eru fyrst og fremst eiginhagsmunabandalög, sem eru notuð til að komast í aðstöðu, fjármagn, stöður og spillingu. Þetta fer ekki leynt, enda virðast kjósendur sáttir að kalla við þessa skipan íslenzkra þjóðmála.

Ekki er tekið út með sældinni að vera með í þessum leik, eins og framsóknarmaðurinn títtnefndi hefur komizt að raun um. Gæfuhjólið snýst án afláts. Einn daginn er minn maður ráðherra á réttu andartaki, í tvö önnur skipti er ráðherrann maður hinna á röngu andartaki.

Það er ekki nóg að vera í pólitík til að hreppa stöður. Það eru svo margir í pólitík, að ekki komast allir lysthafendur að jötunni. Þeir taka þátt í happdrætti, þar sem gæfan er fallvölt. En allir eiga þeir þó möguleika, af því að þeir eru stimpluð flokkseign og eiga miða.

Grundvallaratriði þátttökunnar í þessu happdrætti um stöður er að vera í einhverjum stjórnmálaflokki, sem líklegur er til að hafa oftar en ekki ráðherra á því sviði, sem maður starfar við. Bezt er að vera sem fremst í flokknum til að útiloka innanflokkssamkeppni.

Með því að rekast ekki í neinum flokki, fá menn engan happdrættismiða til að spila með. Sá, sem ekki er stimplaður flokki, á engan möguleika. Þetta hefur komið í ljós í hundruð eða þúsund skipta, þegar flokkspólitík hefur verið tekin fram yfir málefnaleg sjónarmið.

Þetta gerist við allar aðstæður, jafnvel þótt verið sé að skipa prófessora, þar sem nokkuð traustir mælikvarðar eiga að vera á málefnalegum grundvelli. Þannig eru beztu menn hraktir til útlanda, en flokksbræður gerðir að smákóngum í þriðja flokks Háskóla Íslands.

Íslendingar eru ekki nema kvartmilljónar þjóð og eiga því erfitt með að manna alla mikilvæga pósta sæmilega hæfu fólki. Með happdrættisaðferð flokkakerfisins er ástandið gert hálfu verra, því að það gengur hiklaust framhjá hæfu fólki í þágu mishæfra flokkskvígilda.

Stundum gengur þetta dæmi upp. Hæft fólk getur fengizt með happdrættisaðferðinni og oft vex fólk í starfi, sem það hefur fengið út á póltík. Samt er aðferðin þjóðhagslega röng, því að hún spillir beztu kröftum þjóðarinnar með því að neita þjóðinni um að hagnýta þá.

Verið getur, að nýi veðurstofustjórinn reynist hinn nýtasti maður í starfi. En hann var ekki ráðinn til þess, heldur vegna þess að hann hefur verið áberandi í stjórnmálaflokki Eiðs Guðnasonar umhverfisráðherra, sem er álíka spilltur og íslenzkir pólitíkusar eru almennt.

Ráðningarsaga embætta Veðurstofunnar er einfalt dæmi um, að íslenzk stjórnmál og stjórnmálamenn hafa ekkert skánað, þótt þjóðfélagið í heild hafi opnazt.

Jónas Kristjánsson

DV