Forstjóranetið

Greinar

Samband íslenzkra samvinnufélaga bráðvantar peninga, sem það á fasta í hermangsfyrirtækinu Sameinuðum verktökum. Það getur ekki komið þessari eign í verð, af því að það er í minnihlutahópi hluthafa og getur ekki fengið meirihlutann á sitt band.

Aðalfundur Sameinaðra verktaka er enn eitt dæmið um, að íslenzk hlutafélög eru ekki hliðstæð opnum hlutafélögum í útlöndum og geta því ekki að óbreyttu ástandi orðið hornsteinn tilrauna til að gera hlutafjáreign að marktæku sparnaðarformi fyrir almenning.

Í útlöndum væru Sameinaðir verktakar sennilega opið hlutafélag með skráningu á hlutabréfamarkaði. Menn keyptu og seldu í því hlutabréf eftir gengi hvers dags. Stjórnendur þess hefðu að meginmarkmiði að reka fyrirtækið á þann hátt, að arðgreiðslur héldust háar.

Hér á landi er algengt, að stofnun og rekstur fyrirtækja snúist um allt annað en reglubundinn hagnað og góða skráningu á hlutabréfamarkaði. Hér stofna menn fyrirtæki fremur til að fá góða vinnu við þau og síðan til að nota þessa vinnuaðstöðu til annarra áhrifa.

Hlutafélagaflóra Íslands er eins konar forstjóraveldi. Velgengni fyrirtækja er oft notuð til að bæta kjör forstjóra, en ekki til að greiða arð. Þegar betur gengur, komast forstjórar yfir meira hlutafé með því að kaupa það fyrir slikk af þeim, sem þurfa að losna við það.

Forstjórar ákveða verðið, af því að eigendur hlutabréfa geta ekki fengið eðlilegan arð í samræmi við gengi fyrirtækisins og standa uppi með verðlausa pappíra, þótt fyrirtækið sé efnað. Engir hafa hag af þessum verðlausu pappírum nema forstjórar í aðstöðu.

Fjármagns til kaupa á aukinni aðstöðu sinni afla forstjórar með innherjaviðskiptum af ýmsu tagi, svo sem með því að skattleggja aðföng fyrirtækisins í formi umboðslauna og með stofnun pappírsfyrirtækja, sem kaupa og selja vörur og þjónustu hvert af öðru.

Engin leið er fyrir almenna hluthafa að henda reiður á þessum möguleikum. Stjórnarmenn hafa einnig takmarkaða möguleika til afskipta, ef þeir eru ekki í náðinni hjá forstjóranum og meirihluta hans, meðal annars af því að endurskoðendur hlýða forstjórum í blindni.

Þar á ofan fara forstjórar gjarna með eigið fé fyrirtækjanna. Einnig liðka þeir fyrir helztu stjórnarmönnum til að kaupa sér frið fyrir þeim. Þannig myndast skörp skil milli meirihluta og minnihluta í stjórnum þekktra fyrirtækja, sem fátítt er í útlöndum.

Næsta stig er, að fyrirtæki fara að kaupa hluti í öðrum fyrirtækjum, ekki vegna arðvonar, heldur til að kaupa stjórnarsæti handa forstjórum, auka tekjur þeirra og áhrif. Úr þessu er smám saman ofið hagsmunanet forstjóra, sem sitja í stjórnum hver hjá öðrum.

Þessi iðja blómstrar í skjóli ríkisins, sem veitir einkaleyfi og ýmis fríðindi, er gera fyrirtækjum kleift að lifa góðu lífi, þótt annarleg sjónarmið ráði miklu í rekstri þeirra. Bankar koma og til skjalanna og vernda gróin fyrirtæki forstjóranetsins gegn samkeppnisaðilum.

Þetta forstjóranet er kallað Kolkrabbinn, þótt ekki sé um eitt dýr að ræða, heldur ýmis tengd og misvoldug hagsmunabandalög. Samband íslenzkra samvinnufélaga var einu sinni annar hornsteinn svonefnds helmingaskiptafélags, en er nú komið út í kuldann.

Stjórnmálaöflin, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, munu standa vörð um þetta forstjóraveldi, ef einhverjir kynnu að reyna að hrófla við því.

Jónas Kristjánsson

DV