Forstokkun

Greinar

Framkvæmdastjóri Listahátíðar í Hafnarfirði viðurkennir mistök í starfi, en tekur samt enga áþreifanlega ábyrgð á þeim. Þáverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði og núverandi félagsráðherra játar á sig mistök vegna listahátíðarinnar, en tekur enga áþreifanlega ábyrgð á þeim.

Þáttur bæjarstjórans fyrrverandi er eitt af mörgum málum, sem hafa orðið honum til minnkunar í haust. Hann hefur veitt þunn eða engin svör við flestum þeirra. Hann tekur enga ábyrgð á ferli sínum sem bæjarstjóri og ráðherra. Og flokkur hans er þessu samþykkur.

Svo er nú komið í stjórnmálum og opinberum rekstri í landinu, að enginn tekur ábyrgð á neinu. Menn tala út og suður og játa mistök í einstaka tilvikum, þegar málsefni eru svo gróf, að engin útgönguleið er önnur. Síðan halda spilling og getuleysi áfram á óbreyttan hátt.

Orð halda ekki lengur í stjórnmálum og opinberum rekstri og þar á ofan eru skrifuð orð um það bil að bresta. Fjármálaráðherra tekur ekki mark á eigin undirskrift samnings ríkis við sveitarfélög um, að ekki verði framhald á framlagi sveitarfélaga í atvinnuleysissjóð.

Í stað þess að leita til sveitarfélaganna og óska eftir viðræðum um, að fyrra samningi verði breytt á þann hátt, að greiðsla frá sveitarfélögum haldi áfram á næsta ári, setur hann beint í fjárlagafrumvarpið þá upphæð, sem hann hyggst ná í, þvert á fyrri undirskrift sína.

Áður hefur vakið athygli, að hver þjóðarsátt, sem gerð er á vinnumarkaði að undirlagi stjórnvalda, felur í sér ákvæði um, að efnd skuli atriði, sem ríkisstjórnin lofaði með undirskrift næstu þjóðarsáttar á undan. Þannig hlaðast upp skrifleg loforð, sem eru marklaus með öllu.

Það er að verða meiri háttar vandamál í samskiptum við ríkið, að ekkert heldur lengur, ekki einu sinni undirskriftir. Svo er komið, að ráðherrar líta á undirskriftir sínar sem eins konar tæknibrellu til að komast til bráðabirgða yfir enn einn þröskuldinn í ráðherrastarfi.

Þetta ástand hefur smitað ríkisgeirann. Fjölmiðlar hafa svo mörg dæmi um, að embættismenn segi rangt frá eða svo takmarkað, að rangt má telja, að fréttamenn eru að hætta að trúa því, sem þeim er sagt, jafnvel þótt rétt sé. Traustið í þjóðfélaginu er að minnka.

Þá svara embættismenn út og suður ekki síður en ráðherrar. Eitt nýjasta dæmið er úr landbúnaðarráðuneytinu, sem úthlutar höfðingjum sumarbústaðalöndum á ríkisjörðum algerlega án auglýsingar, en heldur samt blákalt fram, að allir geti fengið slíkar lóðir.

Embættismaðurinn, sem svarar fyrir ráðuneytið, segir, að það hafi ekki tíma til að auglýsa sumarbústaðalóðir á ríkisjörðum, en það loki ekki dyrunum á þá, sem vilji fá slíkar lóðir. Þær eru leigðar á 6-14 þúsund krónur á ári til 25 ára með áframhaldandi forleigurétti.

Sumir embættismenn svara út í hött, á villandi hátt eða fara beinlínis með rangt mál eins og stjórnmálamenn án þess að gera sér mikla rellu út af því. Í stjórnkerfinu er farið að telja það eðlilegan gang lífsins og listgrein í sjálfu sér að blekkja fólkið í landinu sem allra mest.

Ekkert annað en skortur á sjálfsvirðingu getur gert stjórnmálamenn og embættismenn svo forstokkaða, að þeir axla ekki ábyrgð á verkum sínum, taka ekki mark á undirskriftum sínum, svara út í hött, villandi eða beinlínis rangt, þegar þeir eru spurðir um viðkvæm atriði.

Þetta eyðir smám saman því trausti, sem brýnt er, til þess að lýðræðisríki fái staðizt í tæknilega flóknum nútíma, er krefst góðs gangverks í þjóðfélaginu í heild.

Jónas Kristjánsson

DV