Förum á útsöluna.

Greinar

Með því að heimila innflutning landbúnaðarafurða getur ríkið sparað sér og skattgreiðendum allar niðurgreiðslur, sem samtals eiga að nema 840 milljónum króna á næsta ári. Slíkt mundi auk þess lækka verð til neytenda.

Innflutningsbannið á kjöti og afurðum úr mjólk er einn mesti óleikur, sem Íslendingum hefur verið gerður í lífsbaráttunni. Það hindrar ódýran aðgang okkar að offramleiðslu Bandaríkjauna og Efnahagsbandalagsins.

Ljóst er, að mikil og vaxandi offramleiðsla landbúnaðarafurða er og verður um ófyrirsjáanlegan tíma eitt af einkennum iðnríkja Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Efnahagsbandalagið er raunar orðið að sjálfvirkri offramleiðsluvél.

Vegna birgðafjalla á alþjóðamarkaði landbúnaðarafurða er betra að vera kaupandi en seljandi. Útflutningsverð eru mjög lág, í Bandaríkjunum einkum vegna innri framleiðni og í Efnahagsbandalaginu einkum vegna útflutningsuppbóta.

Að undanförnu hefur Efnahagsbandalagið magnað landbúnaðarstyrkina, þrátt fyrir þrengri fjárhag. Það telur sig þurfa að keppa við þrefalt framleiðnari landbúnað Bandaríkjanna, sem er sex sinnum framleiðnari en íslenzkur.

Til viðbótar er svo víða staðbundin offramleiðsla, sem keyrir heimsmarkaðsverðið niður. Þar á meðal er nýsjálenzkt dilkakjöt, sem hefur gert íslenzkt óseljanlegt. Á þessu varanlega ástandi hagnast kaupendur.

Smjör og ostur frá útlöndum mundu ekki kosta neytendur nema brot af núverandi verði og þar að auki spara niðurgreiðslurnar. Innflutt mjólk mundi veita aðhald innlendu mjólkurverði og einnig spara niðurgreiðslurnar.

Erlent kjöt af svínum, kjúklingum og jafnvel lömbum mundi lækka fæðiskostnað íslenzkra heimila og létta niðurgreiðslum af ríkinu. Innlenda lambakjötið er nefnilega næstum því eins illa samkeppnishæft og mjólkurvörurnar.

Innflutningsbannið gleymist oft. Margir ímynda sér, að hinn hefðbundni landbúnaður hér á landi sé atvinnuvegur, en ekki dulbúið atvinnuleysi. En hann er raunar óvenju dýr tegund atvinnuleysis, sem lifir í skjóli skorts á samanburði.

Dulbúna atvinnuleysið er mun dýrara í rekstri en venjulegt atvinnuleysi. Fjárfestingar, uppbætur og niðurgreiðslur í hefðbundnum landbúnaði munu nema meira en 500.000 krónum á hvert býli á næsta ári.

Ekki er svo vel, að hinn hefðbundni landbúnaður afli gjaldeyris. Erlend aðföng hans í formi eldsneytis, véla, fóðurbætis og áburðar eru töluvert dýrari en útfluttar afurðir hans í formi uppbótavöru, ullar- og skinnavöru.

Að svo miklu leyti sem atvinnubótaframleiðsla væri látin víkja fyrir innflutningi mundi sparast gjaldeyrir, sem unnt væri að nýta til að kaupa hinar erlendu landbúnaðarafurðir á útsöluverði.

Svo má ekki gleyma, að beina má umtalsverðum hluta starfsorkunnar og peninganna, sem nú brenna upp í hefðbundnum landbúnaði, til arðbærra verkefna, til dæmis í landbúnaði á borð við ylrækt og loðdýr, er aflar gjaldeyris.

Fátt vitlegra er hægt að gera í efnahagsmálunum en láta frjálsan innflutning skera hefðbundinn landbúnað niður við trog, íslenzkum neytendum, skattgreiðendum og raunar einnig bændum til margfaldrar blessunar.

Jónas Kristjánsson

DV