Frá Bollastöðum í Blöndudal um Rugludal og Rugludalskvísl að fjallaskálanum við Galtará á Eyvindarstaðaheiði.
Þetta er meginleiðin upp á Eyvindarstaðaheiði, sæmilegur jeppavegur austan Blöndugils og Blöndulóns.
Við Rugludal byrjar Blöndugil að norðanverðu og nær suður að Reftjarnarbungu við Blöndustíflu. Það er yfir 20 km langt, víðast 50-100 metra djúpt og nær 200 metra dýpt við Tindabjörg. Um örnefnin Rugludalur og Kurbrandsmýri er þessi þjóðsaga: Rugla bjó í Rugludal og hafði smalann Kurbrand. Batt hún strokk á bak hans og lét hann strokka smjörið meðan hann gætti kindanna. Henni þótti hann latur til verksins og drap hann, kom honum fyrir í Kurbrandsmýri. Þar hafa ferðamenn hent steinum í Kurbrandsdys.
Förum frá Bollastöðum eftir jeppavegi suður og upp úr Rugludal og síðan á dalsbrúninni suður um Eyvindarstaðaheiði. Síðast suður um Kurbrandsmýri að skálanum við Galtará á Eyvindarstaðaheiði. Þar komum við á Kjalveg.
26,8 km
Húnavatnssýslur
Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Haugakvísl, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Járnhryggur, Stífluvegur, Vesturheiði.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort