Frá Dunki eða Skiphóli hjá Gunnarsstaðaey á Skógarströnd upp með Bakkaá að Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal.
Sagt var að fara upp á Fossa eða inn Fossa þegar farið var úr Hnappadal og vestur, en talað um suður Fossa þegar farið var úr Hörðudal. Í Bjarnar sögu Hítdælakappa heitir leiðin Knappafellsheiði. Hana fór Þorsteinn Kuggason frá Ljárskógum ásamt mönnum sínum á leið í jólaboð til Dálks að Húsafelli í Borgarfirði og gistu að Hafursstöðum. Var aldrei fjölfarinn og er sjaldfarinn nú. Þegar komið er upp fyrir Fossabrekkur er klettarani rétt vestan við slóðina, sem heitir Beinakast. Þar fundust árið 1954 bein af manni sitjandi á hækjum sér. Sennilega örmagnast á vetrardegi, sofnað og ekki vaknað aftur. Dunkur heitir svo vegna dunka eða dynkja í Hestfossi, en hann er skammt frá þjóðveginum. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð.
Förum frá Skiphóli upp með Dunká að austanverðu suður yfir þjóðveg 54 vestan við Dunk og síðan áfram upp með ánni að vestanverðu inn Dunkárdal. Beygjum við Helguhól vestur úr dalnum inn með Stangá undir Bakkamúla. Síðan suður um Baltarsund og vestur á Baltarhrygg í 400 metra hæð. Þá suðvestur með Fossá, hjá klettarananum Beinakasti og niður Fossabrekkur í Dýjadal, sem liggur norðaustur frá Hlíðarvatni. Áfram að eyðibýlinu Hafursstöðum austan vatnsins eða að Hallkelsstaðahlíð norðan vatnsins. Frá Hafursstöðum förum við suðvestur fyrir vatnið að þjóðvegi 55 við Heggstaði.
18,7 km
Snæfellsnes-Dalir
Nálægir ferlar: Rauðamelsheiði, Skógarströnd.
Nálægar leiðir: Hattagil, Klifháls.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort