Fox veldur fáfræði

Punktar

Vísindamenn við Maryland-háskóla hafa komizt að raun um, að fáfræði Bandaríkjamanna um heimsmálin er afar mikil og fer að nokkru leyti eftir fjölmiðlunum, sem þeir nota. Áhorfendur Fox sjónvarpskeðjunnar voru verst settir. 45% þeirra trúðu öllu í senn, að samband væri milli Saddam Hussein og Al Kaída, að gereyðingarvopn hefðu fundizt í Írak og að flestar þjóðir heims hefðu stutt árás Bandaríkjanna á Írak. 80% þeirra trúðu að minnsta kosti einni fullyrðinganna. Allar voru þær rangar, en eigi að síður hafðar fyrir satt í fréttum Fox, sem er í eigu fjölmiðlakóngsins Rupert Murdoch og stjórnað af lygasérfræðingnum Roger Ailes. Á sama tíma hafa vinsældir Fox-keðjunnar vaxið mjög, svo að búast má við vaxandi fáfræði og langvinnri óstjórn í Bandaríkjunum. Harold Meyerson segir frá þessu í Washington Post.