Umræðan um framtíð Austurbæjarbíós skyggir á stóra glæpinn, sem borgarskipulagið og skipulagsráð borgarinnar eru að drýgja á reitnum. Breyta á barnaleikvelli í blokkir í þágu þeirrar tízkuhugsjónar, að þétta beri byggð í borginni. Fækkað er opnum svæðum, sem mynda andrými í borginni og dregið úr lífsgæðum þeirra, sem verða fyrst að þola hávaða af byggingaframkvæmdum og síðan að þola skert útsýni úr íbúðum sínum og skert svigrúm. Svipað er að gerast í Lundarhverfi í Kópavogi. Pólitíska stjórnarmynztrið er misjafnt, en hin mannfjandsamlega skipulagsstefna sérfræðinganna að baki er hin sama. Í næstu kosningum þarf víða beinlínis að bera fram lista gegn áhrifum arkitekta.