Frá Jöltu til Möltu

Greinar

Berlínarmúrinn glataði hlutverki sínu í fyrradag, þegar stjórnvöld Austur-Þýzkalands veittu fólkinu í landinu frelsi til að ferðast beint til Vestur-Þýzkalands án þess að þurfa að leita hælis í sendiráðum Vestur-Þýzkalands í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu.

Berlínarmúrinn stendur eftir sem nátttröll. Hann er aðeins minnisvarði um, hve langan tíma hefur tekið valdhafa Sovétríkjanna og leppríkjanna að efna veigamestu ákvæði samnings leiðtogafundar austurs og vesturs, sem haldinn var í Jalta fyrir tæplega 45 árum.

Í Jalta var Evrópu skipt í áhrifasvæði, en ekki eignarsvæði. Í Jalta gaf Jósef Stalín þeim Franklin Roosevelt og Winston Churchill skriflegt loforð um frjálsar kosningar og sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, sem lentu á hans áhrifasvæði við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Ef staðið hefði verið við Jalta-samkomulagið, tækju stjórnir ríkja Austur-Evrópu tillit til utanríkishagsmuna Sovétríkjanna og væru ekki í Atlantshafsbandalaginu. Sumar væru í Varsjárbandalaginu, en aðrar hefðu sagt skilið við það og hefðu svipaða stöðu og Finnland.

Nú er þetta loks að koma fram, seint og um síðir. Allt byggist það á breyttri stefnu Sovétríkjanna eftir að Gorbatsjov komst til valda. Hann hefur hafnað Brezhnev-kenningunni um, að Sovétríkjunum sé heimilt að beita valdi til að verja falli stjórnir Austur-Evrópu.

Skyndilega hefur verið boðaður leiðtogafundur austurs og vesturs. Bush og Gorbatsjov munu hittast 2. og 3. desember um borð í herskipum undan Möltu. Talsmaður Sovétríkjanna notaði réttilega tilvísunina “frá Jöltu til Möltu”, þegar hann kynnti fundinn.

Fundurinn við Möltu er eins konar framhald fundarins í Jöltu. Leiðtogar heimsveldanna munu óformlega staðfesta 45 ára gamalt samkomulag og þar með auðvelda frekari stjórnmálaþróun í Austur-Evrópu í átt til lýðræðiskerfisins, sem ríkir í Vestur-Evrópu.

Frjálsar og heiðarlegar kosningar hafa farið fram í Póllandi og verða senn í Ungverjalandi. Slíkar kosningar hafa verið boðaðar í Austur-Þýzkalandi. Og ekki verður séð, að kommúnistum í Tékkóslóvakíu takist að verjast frelsi, þegar það flæðir inn allt í kringum þá.

Kommúnistar eru komnir í mikinn minnihluta í stjórn Póllands, en ríkið verður enn um sinn áfram í Varsjárbandalaginu. Kommúnistar munu sennilega líka missa völdin í Ungverjalandi. Þar er hugsanlegt, að ríkið gangi úr bandalaginu og komist upp með það.

Þannig eru þjóðir Austur-Evrópu í þann veginn að fara hver sína leið, en allar stefna þær í átt til vesturs. Hinir sameiginlegu hagsmunir heimsveldanna, sem ræddir verða við Möltu, eru, að þetta gerist friðsamlega og leiði um síðir til aukins stöðugleika í Evrópu.

Hugsanlegt er, að þessi endurvakta Jalta-stefna nái ekki fram að ganga. En það mundi kosta margfalt meira blóðbað á margfalt fleiri stöðum en á torgi hins himneska friðar í Kína. Breytingarnar eru svo víða og svo langt komnar, að afar erfitt verður að snúa við.

Á forsíðu DV í gær var litmynd af dansandi fólki á Berlínarmúrnum. Myndin er heimssögulegt tákn þess, að heimsstyrjöldinni síðari, og eftirleik hennar í formi kalda stríðsins, er núna loksins sennilega að ljúka með góðum árangri, heilum 50 árum eftir að hún hófst.

Fundurinn við Möltu verður haldinn um borð í vígvél, enda er táknrænt að ljúka frelsisstríði Evrópu formlega í því umhverfi, sem var, þegar stríðið hófst.

Jónas Kristjánsson

DV