Frá smámálum til stórmála

Greinar

Samkeppnisstofnun er farin að líta upp úr smámálum og veita stórmálum athygli. Hafin er þar rannsókn á tveimur fákeppnismörkuðum, annars vegar flugi og hins vegar greiðslukortum. Rannsókn á benzíni og bönkum, tryggingum og landbúnaði kemur vonandi í kjölfarið.

Í upphafi ársins 1995 gaf stofnunin út skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu. Niðurstaða hennar sýndi skýr einkenni um fákeppni hér á landi. Rannsókn á flugi og greiðslukortum er fyrsta skref stofnunarinnar til að bregðast við þessum veruleika.

Flugið er ljóst dæmi um óeðlilegt markaðsástand. Eitt fyrirtæki ber þar ægishjálm í skjóli opinberra sérleyfa og eindregins stuðnings samgönguráðuneytisins. Þessa sérstöðu hafa Flugleiðir notað til að ryðja sér til rúms á skyldum sviðum, svo sem í hótelum og bílaleigu.

Þegar flugvélar Flugleiða eru að lenda á Keflavíkurvelli, er í hátalarakerfinu mælt með hótelum og bílaleigu fyrirtækisins. Þannig myndast lóðrétt kerfi, þar sem ofurstaða á einu meginsviði er notuð til að halda ferðamanninum einnig undir væng fyrirtækisins á jörðu niðri.

Þannig flétta Flugleiðir net niður á við, alveg eins og þær eru þáttur í stærra neti, sem hefur Eimskipafélagið að miðju og hefur á allra síðustu árum teygt þræði sína um vöruflutninga á landi. Þannig er að myndast ein ofurfyrirtækjasamsteypa í samgöngum og ferðamálum.

Kortafyrirtækin tvö eru að mestu í eigu bankanna og samkeppnin hefur dofnað með árunum. Nú er svo komið, að þau nenna ekki að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna, til dæmis með því að þrýsta niður miklu álagi, sem þeir borga víða ofan á staðgreiðsluverð.

Skiljanlegt er, að Samkeppnisstofnun geti ekki fengizt við meira en tvo málaflokka í einu, ef hún vill gera það af fullum þunga. Hinu er þó ekki að leyna, að olíufélögin tvö og hálft hefðu kunnað einkar vel við sig í þessum upphafshópi Flugleiða, Eurocard og Visa.

Þegar Irvin-feðgar ætluðu að setja hér upp olíufélag, vöknuðu fákeppnisaðilarnir af dvalanum, fóru að sækja um lóðir út og suður og komu á fót sjálfsafgreiðslu með ódýrara benzín. Þannig komu þau í veg fyrir, að Irvin- feðgar sæju sér nægilegan hag í markaðinum.

Meðan Irvin-málið var í gangi, var lítið um benzínhækkanir. Þegar þeir höfðu hætt við, fór benzín skyndilega að hækka. Ekki má svo verða hreyfing upp á við í verði í Rotterdam, að það endurspeglist ekki umsvifalaust hér. En niðursveiflan gleymist oftast.

Neytendasamtökin hafa sérstaklega beðið Samkeppnisstofnun um að rannsaka benzínhækkanirnar að undanförnu og samhengi þeirra við verðsveiflur á markaði í útlöndum. Einnig hafa þau óskað eftir árangri í verði af hagræðingu vegna fækkunar oktantegunda benzíns.

Tryggingafélögin eru enn eitt dæmi um fákeppni, sem bezt lýsir sér í frækilegri og sameiginlegri aðför þeirra að slösuðu fólki, þar sem þau nutu stuðnings þess meirihluta, sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar hverju sinni á Alþingi, ljúflegast þó með Framsóknarflokknum.

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda er að gera tilraun til að brjótast undan ofurvaldi tryggingafélaganna. Það stendur í viðræðum við tryggingafélag á vegum Lloyd’s í London. Væntingar eru um, að þetta rjúfi skarð í hinn séríslenzka múr fáokunar gegn markaðslögmálum.

Íslenzkt atvinnulíf er vegna smæðar, einangrunar og ríkisverndaðrar fákeppni ekki samkeppnishæft við erlent. Rannsókn á þessu ástandi er einkar vel þegin.

Jónas Kristjánsson

DV