Frábær sendiherra

Greinar

Aðeins ein íþróttagrein kallar ein sér á tíu þúsund áhorfendur, er Íslandsmót er haldið. Í aðeins einni grein sitja menn þúsundum og dögum saman í grasbrekku til að horfa á svo langvinna keppni, að í sumum tilvikum fást ekki tölur fyrr en að nokkrum dögum liðnum.

Landsmót hestamanna að Hellu sýndi enn einu sinni, að hestamennska er í senn ein helzta þátttökuíþrótt landsmanna og langsamlega vinsælasta áhorfendaíþróttin. Hraðgengustu boltaíþróttir með miklum markafjölda ná ekki þvílíkum áhorfendaskara á helztu leiki Íslandsmóta.

Landsmót hesta og hestamanna eru raunar tvö, því að í lok þessa mánaðar verður haldið árlegt Íslandsmót í hestaíþróttum. Munurinn á þessu tvennu er einkum sá, að á landsmóti hestamanna keppa hestarnir, en á Íslandsmóti í hestaíþróttum keppa knaparnir.

Áhorfendur á Íslandsmóti í hestaíþróttum verða mun færri en voru á landsmóti hestamanna. Þar verða keppendur, frændur og vinir eins og á stórmótum í öðrum vinsælustu íþróttagreinum landsmanna. En keppni knapanna stenzt engan samjöfnuð við keppni hestanna.

Enginn atburður á Íslandi dregur útlendinga til landsins í þeim mæli, sem landsmót hestamanna gerir á reglubundinn hátt. Heimsmeistarakeppni í handbolta mun tæpast draga hingað 4000 útlendinga, hvað þá önnur keppni eða hátíð. En það gerði landsmótið að þessu sinni.

Íslenzki hesturinn er orðinn að þvílíkum draumi í hugarheimi fólks víðs vegar um Evrópu og Norður- Ameríku, að utan Íslands eru gefin út að minnsta kosti fjórtán tímarit um íslenzka hestinn eingöngu. Um 50.000 íslenzkir hestar eru í Þýzkalandi einu saman.

Eigendur íslenzkra hesta um allan heim eru að verða að eins konar þjóðflokki, sem heldur þjóðhátíð sína til skiptis á landsmóti hestamanna á Íslandi og á heimsleikum íslenzkra hesta, sem haldnir eru í Evrópu. Allir þræðir þessarar sérvitringaþjóðar liggja til Íslands.

Hesturinn er það, sem allt snýst um í þessum hópi. Það er ekki aðeins hin einstæða geta á fimm gangtegundum, sem höfðar til fólks, heldur einnig óvenjulega ljúft skaplyndi, hlaupagleði og mannelska íslenzka hestsins, sem hittir fólk um allan heim beint í hjartastað.

Þótt mestu áhugamennirnir reyni alls staðar að rækta sjálfir íslenzka hesta, er reynslan sú, að það bezta verða menn að sækja til Íslands. Árlega eru fluttir út milli 2000 og 3000 fulltamdir reiðhestar og kynbótahryssur, svo og tugir stóðhesta. Þessi útflutningur vex með hverju ári.

Umhverfis þetta áhugamál hefur myndazt fjölmenn stétt atvinnumanna. Þar eru hrossabændur og ferðabændur; tamningamenn og járningamenn, sýningarknapar og hestabraskarar, hestaleigjendur og leiðsögumenn hestaferða, reiðkennarar og fjölmiðlamenn.

Hestamennska er orðin umfangsmikill þáttur í ferðaþjónustu, svo sem sést af landsmóti hestamanna. Hundruð erlendra gesta eru hér vikum saman, margir kaupa hesta og hestavörur. Margir koma hingað á hverju ári til að hitta vini, stunda viðskipti eða til hestaferða.

Samt eru lagðir steinar í götu hestaferða, einkum af hálfu Vegagerðarinnar, sem spillir og eyðir gömlum reiðleiðum, og sumra landeigenda, sem girða fyrir gamlar reiðleiðir. Hvort tveggja er ólöglegt, en samt framkvæmt í stórum stíl, af því að lögum er ekki framfylgt.

Öll byggist þessi velta á íslenzka hestinum, sem hvarvetna verður miðpunktur fjölskyldulífs, þar sem hann kemur á vettvang, hinn frábæri sendiherra Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV