Frábær Tryggvagata

Greinar

Hafnarhúsið í Reykjavík er kjörið hús til að nota undir verzlanamiðstöð til eflingar mannlífi í Kvosinni, elzta hluta bæjarins, svo sem Þróunarfélag Reykjavíkur hefur lagt til. Þetta er kjarninn í ágætum tillögum félagsins um að gera Tryggvagötu að miðpunkti borgarlífsins.

Þróunarfélagið vill koma fyrir matvörumarkaði í vörugeymslunni í Tryggvagötu 15, skuggalega og gluggalitla húsinu við hlið Hafnarhússins. Þetta er mikið hús, sem vafalaust gæti rúmað stóran matvörumarkað og að auki markað fyrir nýlenduvörur og aðrar nauðsynjar.

Félagið vill hafa smáverzlanir, veitingastaði og þjónustufyrirtæki á 1. og 2. hæð sjálfs Hafnarhússins í Tryggvagötu 17. Húsið er byggt á þann hátt, að með litlum kostnaði er hægt að ganga inn í margar smáverzlanir bæði utan frá götunum og innan úr porti hússins.

Með því að setja glerþak yfir portið er hægt að koma þar fyrir útimarkaði í sífelldu góðviðri og leysa þann vanda, að fólk hafnar því að verzla í roki og rigningu í miðbænum og kýs heldur að verzla innan dyra í Kringlunni og öðrum hliðstæðum verzlanasamstæðum.

Þessi tvö hús, Tryggvagata 15 og 17, hafa lengi verið dauðir punktar í tilveru Reykjavíkur. Húsin eru bæði vel fallin til þeirrar notkunar, sem Þróunarfélagið leggur til. Þess vegna mundi framkvæmd tillögunnar gerbreyta viðmóti miðbæjarins gagnvart borgarbúum og öðru fólki.

Breyting húsanna tveggja er liður í stærri áætlun, sem gerir ráð fyrir, að neðsta hæð Tollstöðvarinnar í Tryggvagötu 19 verði lögð undir markaði, svo sem blómamarkað og grænmetismarkað. Sú hugmynd virðist vera í einkar eðlilegu samhengi við breytingar á hinum húsunum.

Loks gerir Þróunarfélagið ráð fyrir, að handan Tollstöðvar verði í Tryggvagötu 21 reist hús fyrir lögreglustöð, verzlanir og þjónustu, og einkum þó fyrir nýja miðstöð strætisvagna. Þar með væri búið að ná saman pakka, sem virðist mjög eftirsóknarverður og spennandi.

Þessi breyting á Tryggvagötunni yrði sérstaklega aðlaðandi, ef öll þessi hús væru tengd með gangvegi undir þaki, svo að fólk geti farið úr strætisvagni og rekið öll sín hversdagslegu erindi í friði fyrir veðri og vindum. Slík grið vantar einmitt í Kvosinni um þessar mundir.

Þróunarfélagið leggur til fleiri breytingar á gamla bænum, svo sem endurmótun Hlemmtorgs og aukin bílastæði á baklóðum Laugavegar, ráðstefnumiðstöð í Faxaskála og margt fleira. En Tryggvagötuhugmyndin er þungamiðja athyglisverðra tillagna félagsins.

Hér í blaðinu hefur stundum verið haldið fram, að Laugavegur muni ekki ganga í endurnýjun lífdaganna, fyrr en hann hefur verið varinn með glerþaki fyrir náttúruöflunum, sem standa í vegi fyrir því að unnt sé að búa til klassíska miðbæjarstemmningu í Reykjavík.

Ef innangengt verður frá strætisvagnastöðvum og bílageymsluhúsum við Laugaveginn að götunni sjálfri og frá henni inn á Hlemm annars vegar og hins vegar inn í Austurstræti og inn í hin fyrirhuguðu Tryggvagötuhús, hefur verið efnt til ánægjulegs miðbæjar í Reykjavík.

Hin nýstárlega tillaga Þróunarfélagsins um Tryggvagötu er eitt fárra dæma um, að einstaka sinnum eru settar fram svo rökréttar og skemmtilegar hugmyndir, að eina markverða athugasemdin felst í að furða sig á, að engum skuli hafa dottið þetta fyrr í hug.

Með tillögu Þróunarfélagsins um Tryggvagötu hafa borgaryfirvöld fengið í hendurnar kjörið tækifæri til að gera borgarlífinu mikið gagn með litlum tilkostnaði.

Jónas Kristjánsson

DV