Frábært Disneyland Eddukvæða

Punktar

ALLS STAÐAR ER framtakssamt fólk að reyna að gleðja gesti og gangandi. Setur af ýmsu tagi hafa sprottið upp um allt land. Við höfum auðvitað draugasetur, Njálusetur og Heklusetur. Við höfum setur Jóhanns svarfdælings, vesturfarasetur og reðursetur. Við höfum setur Eiríks rauða og álfasetur.

HAFNFIRÐINGAR HAFA lagt áherzlu á álfa og huldufólk annars vegar og víkinga hins vegar. Engu máli skiptir, hvort hér hafa einhvern tíma verið álfar, huldufólk eða víkingar. Spurningin er bara, hvort hugmyndin selzt. Og ferðamenn reynast hafa töluverðan áhuga á að skoða álfa og víkinga.

SUMIR MYNDLISTARMENN leita fanga í fornum minnum, til dæmis úr þýzkri goðafræði, og fjalla um Fáfnisbana, Freyjukynóra og annað slíkt, er sjá má í myndum á einu setrinu, á hótelinu í Reykholti. Myndir Alfreðs Flóka eru frægar og Haukur Halldórsson hefur stundum svipað yrkisefni.

NÚ HEFUR HAUKUR tekið saman höndum við annan listamann, Sverri Sigurjónsson. Þeir hafa lagt mikla vinnu í að búa til teikningar og jafnvel líkön af miklum goðafræðigarði, sem verður auðvitað til þess fallinn að gleðja gesti og gangandi. Ennþá frekar en Tívólí eða Húsdýragarðurinn.

ÞEIR ERU MEÐ HUGMYND að risastórum skemmtigarði utan um undraveröld Eddukvæða, eins konar Disneyland, þar sem fólk getur gist á hótelum og farið í leiki í Jötunheimum, Niflheimum, Hvergemli, Dvergheimi, Múspelli eða Ásgarði, þar sem verða endalausar hátíðir með svalli og bjórdrykkju.

ÞETTA Á AÐ VERÐA fjölmargra ferkílómetra svæði og kemur til með að kosta milljarða að mati hugmyndasmiðanna. Þeir sýndu skipulagsuppdrætti, sem minna pínulítið á drauma Þórðar Ben um Vatnsmýrina. Yfirþyrmandi hugmynd þeirra er, að þetta verði langstærsta aðdráttarafl ferðamanna til Íslands.

ÞAÐ SÉRKENNILEGASTA við róttæka hugmynd þeirra félaga er, að hún gæti vel gengið upp. Ferðamenn vantar ekki bara hótel, heldur stanzlaus leikhús og bíó, stanzlausar skemmtanir og hátíðir, stanzlaus leiktæki og uppákomur. Það væri fínt að fá þetta í Vatnsmýrina eða við Bláa lónið eða í Leifsstöð.

DV