Frábært landsmót

Hestar

Landsmótið á Hellu var glæsilegra og betur skipulagt en nokkru sinni fyrr. Dagskrárliðir héldu áætlun og voru jafnvel færðir fram. Einkum var þó svæðið betur í stakk búið til að mæta misjöfnu veðri. Aðstæður voru farnar að líkjast því, sem var á landsmótinu í Víðidal, með malbiki og þökum.

Malbikuð göngusvæði voru nýjung í Víðidal árið 2000. Eftir mótið á Hellu verður hér eftir ekki haldið landsmót án þess að göngusvæði, tjaldbotnar og gönguleiðir verði malbikuð og vatnsræst. Þar með eru taldar gönguleiðir milli helztu svæða staðarins. Hér eftir munu landsmót ekki rigna niður í svað.

Tjöldin miklu voru frábær og gefa tóninn um framtíðina, sem byrjaði með reiðhöllinni á landsmótinu í Víðidal. Á Hellu gátu hundruð manna setið samtímis af sér regnskúri sunnudagsmorguns undir þaki í veitinga- og kvöldvökutjöldum. Næst verða áreiðanlega enn víðáttumeiri tjöld í boði.

Bezta nýjungin á Hellu var risaskjárinn á úrslita- og kynbótavellinum, sem gaf ótrúlega skýrar myndir af keppni og tölum. Númeruðu sætin voru líka góð nýjung, þar sem fólk gat gengið að tryggum sætum gegn hóflegu gjaldi. Landsmót verða hér eftir ekki haldin án tveggja risaskjáa og númeraðra stúkusæta.

Veitingarekstur gekk líka betur en oftast áður og verzlunarrekstur var meiri en nokkru sinni fyrr, einkum í vel skipulögðu markaðstorgi, þar sem stórir og smáir aðilar sýndu hlið við hlið. Í næsta skrefi veitinga fjölgar afgreiðslustöðum með mismunandi tegundum veitinga, eins og oft hefur verið á heimsleikum.

Hella er mjög gott landsmótsvæði með löngum hrygg milli tveggja keppnissvæða. Vindheimamelar og Melgerðismelar eru ekki sambærilegir eins og stendur, en má auðvitað laga með töluverðum kostnaði. Með góðu skipulagi stenzt Víðidalurinn hins vegar tæknilega samanburð við Hellu. Greinilegt er þó, að margir vilja fremur halda slík mót í sveit heldur en í borg.

Skrens varð í prótókolli landsmótsins. Hvergi voru nærri forsetahjónin, sem gert hafa mikið fyrir hestamennsku og fengið fjögurra ára umboð þjóðarinnar til viðbótar. Lítið bar á landbúnaðarráðherra, sem gengið hefur berserksgang fyrir hestamennsku síðan hann tók við störfum. Stjórnendur landsmóta verða að stíga varlega í pólitík og siðareglum, þótt vel hafi gengið um skeið.

Eiðfaxi fjallar að þessu sinni eingöngu um þetta frábæra landsmót og um mál, sem komu upp í tengslum við það, svo sem dýralæknaráðstefnuna á Selfossi og reiðleiðakerfi á vefnum, sem opnað var á landsmótinu, svo og bréfaskipti út af aðgengi Skota að WorldFeng.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2004