Nýi hæstaréttardómarinn hlaut að vita, hvað hann var að gera, þegar hann sótti um starfið. Hann var ekki að drepa tímann á Selfossi eins og hver annar leiksoppur örlaganna. Þeir, sem hafa minna fram að færa en aðrir umsækjendur, reikna yfirleitt með stuðningi úr annarri átt, pólitíkinni.
Í umræðunni um misbeitingu ráðherravalds við val á dómara í Hæstarétt hefur verið einblínt á framtak ráðherrans, sem var ekki að skara eld að eigin köku. Minna er talað um þann, sem sótti um starfið, þótt hann vissi, að ýmsir mundu sækja um og vera með langtum rismeiri æviferil á umsóknareyðublaðinu.
Í síðustu viku varð seðlabankastjóri Þýzkalands að segja af sér í skömm, af því að fréttablaðið Spiegel upplýsti fyrst, að hann hefði gist fjórar nætur á Adlon í Berlín á kostnað Dresdner Bank, og síðan, að hann hefði dvalið eina nótt á lystisnekkju í Monaco í boði Bayerische Motoren Werke.
Þetta minnir á íslenzka bankastjórann, sem raunar er enn við völd. Hann þáði löngum boð um laxveiði í löngum bunum. Hann var að þjóna eiginhagsmunum eins og seðlabankastjórinn þýzki og nýi hæstaréttardómarinn. Dómsmálaráðherrann var hins vegar að stunda aðra tegund spillingar, fyrirgreiðslu.
Pólitíkin á Íslandi er ekki mjög spillt að því leyti, að valdamenn skari eld að eigin köku. Hún hefur hins vegar lengi verið gerspillt í fyrirgreiðslum handa vinum og vandamönnum og pólitískum gæludýrum. Björn Bjarnason er bara gamall flokksjaxl að þjónusta frænda Íslandskóngs.
Flestir ráðherrar stunda slíkar fyrirgreiðslur. Sérstaða dómsmálaráðherrans er tvenns konar. Í fyrsta lagi er hann stórkarlalegri en flestir aðrir og lætur sig ekki muna um að niðurlægja Hæstarétt. Í öðru lagi þreytist hann ekki á að flytja sannfærða langhunda um réttmæti ákvörðunar sinnar.
Þar að auki hefur ráðherrann gerzt helzti málsvari þess, að leggja beri niður nýlega sett lög, sem takmarka geðþótta ráðherra. Hann er Björn síns tíma, nánar tiltekið upphafs nítjándu aldar, þegar Friðrik VI, einvaldskonungur af Guðs náð yfir Íslandi og Danmörku, upplýsti: “Vi alene vide”.
Það lýsir forneskju ráðherrans vel, að hann telur Sigurð Líndal prófessor ekki eiga að amast við fyrirgreiðslum ráðherrans, af því að hann sé sjálfur fyrirgreiðsluþegi. Virðist ráðherrann telja, að menn, sem tekið hafi að sér verk á vegum ráðherrans, skuli vera ævilangir þjónar hans.
Sérkennileg sjónarmið ráðherrans hafa vakið mikla og verðskuldaða athygli. Því er hætta á, að það gleymist, að mörgum Íslendingum finnst í lagi að reyna að misnota fyrirgreiðslukerfið. Þar á meðal nýjum hæstaréttardómara.
Jónas Kristjánsson
DV