Breytingin tekur stundum ekki nema nokkra mánuði. Unglingurinn, sem áður var hreinn og snyrtilegur að mati foreldranna, er allt í einu orðinn síðhærður, úfinn og klæddur hálfgerðum lörfum. Þar á ofan fréttist af honum drukknum í Þjórsárdal um hvítasunnuhelgina.
Það er ekki von, að foreldrarnir átti sig á, hvaðan á þá stendur veðrið. Það er raunar athyglisvert, hve margir foreldrar bregðast vel við þessum hamskiptum unglingsins og reyna að gera gott úr öllu saman. Og það er líka erfið þrekraun fyrir marga foreldrana.
Stundum er sagt, að æskan sé alltaf eins, uppreisnargjörn og lagin á að hneyksla hina fullorðnu. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Þau stórtæku hamskipti, sem nú verða á unglingum á skömmum tíma, eru sérstætt fyrirbrigði í veraldarsögunni.
Hamskiptin byggjast á velsæld þjóðfélags nútímans. Tæknin og peningarnir hafa flutt búksorgirnar brott og gefið fyrirheit um nýtt og betra líf. Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður halda hinir fullorðnu áfram sínum fyrri venjum. Þeir eyða að vísu meiru, en öðlast samt ekki aukna gæfu.
Unglingarnir, sem fæddireru í velsæld, hafa betri aðstöðu til að laga sig að henni. Þeir notfæra sér velsældina óspart og gera sér litla grein fyrir þeirri sjálfsafneitun hinna eldri, sem hefur byggt velsældina upp. En þeir sjá hins vegar greinilega ýmsa gervimennsku, helgislepju, tvöfeldni og annað ófagurt mannlíf í heimi hinna fullorðnu.
Ef til vill hafa hinir fullorðnu fórnað of miklu til að byggja velsældina upp með miklum hraða. Ef til vill hafa þeir í leiðinni týnt einhverju mikilvægu úr sjálfum sér. Þetta hafa margir unglingar á tilfinningunni án þess þó að gera sér nánari grein fyrir því.
Unglingarnir hafa gert friðsamlega uppreisn gegn heimi hinna fullorðnu. Þeir vilja fara eigin leiðir til að leita að gæfunni, sem velsældin átti að skapa, en gerði ekki. Þeir vilja vera utangarðsmenn í samfélagi hinna fullorðnu. Unglingarnir hópa sig saman í eigin samfélög, með eigin siðum og venjum. Nýstárlegur klæðaburður er aðeins einn af ytri þáttum þessarar uppreisnar.
Tilfinningar sínar túlka unglingarnir fyrst og fremst í tónlistinni, hinni nýju orkuþrungnu tónlist rafmagnstækjanna, sem er fjarlæg heimi hinna fullorðnu. Í textunum má svo lesa áhuga unglinganna á að lifa í núinu, vera þátttakandi en ekki áhorfandi í lífinu, leitun að reynslu, barnslega gleði og afturhvarf til náttúrunnar.
Í unglingunum er sérkennilega öflugt sambland af félagshyggju og einstaklingshyggju. Þeir eru mjög háðir samveru og samvinnu við jafningja sína, en leggja um leið áherzlu á að þroska einstaklingseinkenni sín og rækta sjálfsmeðvitund sína.
Spurningin mikla er sú, hvers konar mannfélag unglingarnir munu byggja upp, þegar þeir hafa tekið völdin í þjóð félaginu. Við því er ekkert svar hægt að gefa á þessu stigi málsins. Aðeins eitt er víst, að unglingarnir munu ekki hverfa aftur til mannfélags þeirra, sem nú eru fullorðnir. Unglingarnir eru lagðir af stað í ferð um ókunnar slóðir með framandi áningarstöðum.
Jónas Kristjánsson
Vísir