Listi Þjóðvaka í Reykjavík er sama marki brenndur og listi flokksins í Reykjaneskjördæmi og í flestum öðrum kjördæmum. Í allra fremstu sætum skartar hann fólki, sem þegar er þekkt úr öðrum flokkum. Nýja grasrótarfólkið er yfirleitt ekki í vonarsætum listanna.
Aðstandendur Þjóðvaka hafa lagt mikla áherzlu á að laða til sín frambjóðendur úr öðrum flokkum. Auðvitað er þar margt Alþýðuflokksmanna, af því að flokksleiðtoginn er þaðan, en nýja flokknum hefur einnig orðið nokkuð ágengt hjá Alþýðubandalags- og Framsóknarfólki.
Sumir frambjóðendur Þjóðvaka eru þekktir fallistar úr öðrum flokkum eða hafa ekki náð þar þeim frama, sem þeir telja eðlilegan. Aðrir hafa flutt sig um set til að stuðla að sameiningu fólks á vinstri væng stjórnmálanna undir nýju og óflekkuðu merki heiðarleikans.
Skoðanakannanir sýna, að margir upphaflegir stuðningsmenn Þjóðvaka hafa skilið við hann aftur. Sumt af fallistunum og framaskerta fólkinu hefur snúið heim, því að Þjóðvaki gat ekki rúmað það allt í vonarsætum framboðslista. Þetta er það, sem kallast flokkaflakk.
Mestur er þó missir Þjóðvaka í fólki, sem ekki var þekkt úr öðrum flokkum og ekki fór aftur til föðurhúsanna. Þetta er fólk úr hópi 40-45% kjósenda, sem ekki létu í ljós álit sitt í síðustu skoðanakönnun DV. Sumt af því taldi sig um tíma eiga leið með nýja flokknum.
Aðstandendur Þjóðvaka gerðu mistök, er þeir ákváðu að leggja meiri áherzlu á frambjóðendur í vonarsætum úr öðrum stjórnmálaflokkum heldur en úr grasrótinni. Þeir voru svo uppteknir af óskinni um vinstri sameiningu, að þeir misstu grasrótina úr höndum sér.
Hinn mikli stuðningur í upphafi við sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur var ekki nema að litlum hluta stuðningur við þetta gamla sameiningarmál. Það var miklu frekar uppreisn flokkslausra undir merki heiðarleikans gegn gömlum og óhreinum stjórnmálaflokkum.
Bezt hefði verið sú ímyndaða staða, að Þjóðvaki hefði boðið Jóhönnu eina fram í nokkrum efstu sætum í öllum kjördæmum. Á öllu öðru hlaut flokkurinn að tapa nokkru fylgi og mest með aðferðinni, sem beitt var. Og nú er orðið of seint að þvo burt sameiningarstimpilinn.
Vinstri sameiningarstefnan er orðin að martröð fyrir Þjóðvaka, af því að gömlu flokkarnir frá miðju og yfir til vinstri geta nú haldið fram, að þeir séu stærri en nýi flokkurinn og geta því haldið áfram hinu eilífa rifrildi um, hver þeirra eigi að erfa vinstra ríkið.
Þetta rifrildi er stundað í fámennum hópum. Almenningur hefur ekki áhuga á því og lætur sig litlu varða, þótt Þjóðvaki veiði fólk úr framvarðarsveitum annarra vinstri flokka og missi sumt af því aftur til baka. Það telst bara til ýfinga milli sértrúarsafnaða.
Það eru önnur áhugamál, sem ráða ferðinni hjá þeim 40-45% kjósenda, sem ekki geta tjáð sig eða vilja ekki tjá sig um stuðning við stjórnmálaflokka. Sumt af því fólki er áhugalítið um stjórnmál. Flest af því á þó sameiginlegt að vera hundóánægt með flokkana yfirleitt.
Sennilega kemur einhvern tíma fram stjórnmálahreyfing, sem sameinar mikið af þessu fólki undir nýju og flekklausu merki. Hún mun læra af mistökum Þjóðvaka og bjóða fram fólk, sem ekki er þekkt af þátttöku í starfi flokkanna. Þá fyrst verða gömlu flokkarnir hræddir.
Núna gerist bara það, að hinir óákveðnu raðast hlutfallslega ójafnt á flokkana, þegar til kastana kemur, svo að úrslitin verða töluvert á skjön við kannanir.
Jónas Kristjánsson
DV