Þrátt fyrir Michael Moore og Fahrenheit 9/11 er líklegt, að George W. Bush sigri í forsetakosningum Bandaríkjanna. Þótt hann sé illa gefinn trúarofstækismaður í gíslingu auðmanna, heldur hálf þjóðin áfram að styðja hann. Auk þess hefur hann sem spilltur forseti færi á aðgerðum til að efla fylgi sitt.
Ef John Kerry sígur fram úr Bush í skoðanakönnunum, geta Bush og gersamlega siðlausir ráðgjafar hans komið af stað á réttum tíma atburðarás, sem veldur því, að þjóðinni finnist traustast að halla sér að ríkjandi forseta. Þeir geta magnað ótta við hryðjuverk og jafnvel ýtt hryðjuverkum af stað.
Osama bin Laden styður Bush. Meðan ofstækismaðurinn heldur völdum í Bandaríkjunum, heldur úti styrjöldum og hernámi í löndum múslima, mun ekki verða neitt lát á straumi ungra manna í hryðjuverkahópa, sem draga lærdóm af aðferðum Ladens. Bush er forsenda uppgangs hryðjuverka í heiminum.
Við sáum, hvað gerðist, þegar Tom Ridge innanríkisráðherra laug upp fyrirhuguðum hryðjuverkum í Wall Street fyrir rúmri viku. Fáir þorðu að segja neitt, þar á meðal Kerry forsetaefni. Svo kom í ljós, að heimildirnar voru nokkurra ára gamlar og fyrir löngu úreltar. Útkallið var bara gabb.
Fróðlegt er, hversu létt er að fá Bandaríkjamenn til að veifa fánanum. Þegar Tom Ridge gabbaði þá með útkalli hersveita í Wall Street, heilsaði Kerry að hermannasið. Aðeins Howard Dean, fyrrum frambjóðandi sem forsetaefni demókrata, beindi fingri að Bush. En enginn hlustaði.
Því miður er hálf bandaríska þjóðin ekki bara ofbeldishneigð gagnvart útlöndum, heldur beinlínis stríðsóð. Hálf þjóðin telur útlendinga yfirleitt vera eins konar dýr, óæðri Bandaríkjamönnum. Þess vegna vilja Bandaríkjamenn láta kvelja útlendinga og hunza alþjóðlegar samskiptareglur.
Ein helzta gagnrýnin á Kerry, forsetaefni demókrata, er, að hann kunni að tala frönsku. Í krumpuðum heimi hálfrar bandarísku þjóðarinnar er það ekki talið vera dæmi um nauðsynlega yfirsýn mannsins, heldur ávísun á, að hann hljóti að vera hættulegur Guðs Eigin Landi, Bandaríkjunum.
Enda þorir Kerry varla að koma fyrir sjónir almennings án þess að heilsa að hermannasið og tala um reynslu sína frá Víetnam. Ástandið er orðið svo alvarlegt í Bandaríkjunum, að enginn kemst hjá því að kynna sig sem stríðsmann. Það er þetta, sem gerir Bandaríkin svo hættuleg framtíð mannkyns.
Því meiri handtökur og því meira blóð, þeim mun stærri verða fréttirnar í Fox sjónvarpinu og því meira eykst áhorfið á Fox, þar sem hin ofbeldishneigða þjóðarsál er mögnuð upp.
Jónas Kristjánsson
DV