Framleiðsluráð rotnunarinnar.

Greinar

Komið hafa í ljós óeðlileg hagsmunatengsl á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þeirrar stofnunar, sem miðstýrir landbúnaðinum og ráðskast meðal annars með sjóði og millifærslur í því skyni. Eitt dæmi af þessu tagi var rakið hér í blaðinu nýlega.

Gísli Andrésson og sonur hans, Jón Gíslason, eru bændur á jörðinni Hálsi í Kjós. Þeir standa í miklum framkvæmdum við að auka framleiðslu býlisins, þótt Framleiðsluráð landbúnaðarins þykist vera að reyna að koma upp kvótakerfi til að draga úr offramleiðslunni.

Samt situr Gísli í Framleiðsluráði og þar á ofan í framkvæmdanefnd þess, æðsta ráðinu. Í Framleiðsluráði úthlutar hann meðal annars lánum og styrkjum úr Kjarnfóðursjóði. Þessi úthlutun er fræg fyrir, að hennar njóta einkum skjólstæðingar Framleiðsluráðs.

Gísli er einn af stofnendum fuglasláturhússins Hreiðurs hf. (Ísfugl), sem hefur fengið 3,3 milljón króna lán úr Kjarnfóðursjóði á núgildandi verðlagi. Til samanburðar hefur fuglasláturhúsið Dímon, sem afkastar meiru, fengið 1,3 milljón króna lán úr þessum sjóði.

Stærsti hluthafi Hreiðurs hf. er Sláturfélag Suðurlands. Það á líka fulltrúa í Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem úthlutaði láninu. Sláturfélagið tekur þannig þátt í að úthluta sér fjármagni umfram aðra. Í öðrum greinum væri þetta talin stórfelld spilling.

Hagsmunaflækjan er ekki fyllilega rakin enn. Jón á Hálsi er formaður Sambands eggjaframleiðenda, sem hefur reist eggjadreifingarstöð fyrir 4 milljón króna styrk úr Kjarnfóðursjóði, sem kallaður er lán til að byrja með. Öðrum hefur verið neitað um slíkt.

Og nú hefur Sláturfélag Suðurlands bréflega sagt upp viðskiptum við alla eggjabændur, sem ekki leggja inn hjá Ísegg, eggjadreifingarstöð Jóns og Sambands eggjaframleiðenda. Þannig lokast hagsmunahringur Sláturfélagsins, Framleiðsluráðs og Hálsbænda.

Rotnunin í Framleiðsluráði landbúnaðarins og umhverfis það mun halda áfram, af því að ráðið nýtur sérstakrar verndar Framsóknarflokksins, ekki bara hluta hans, sem er í Framsóknarflokknum, heldur líka hins, sem er í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.

Kjarnfóðursjóður er ekki eina illræmda stofnunin á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Ráðið gerir líka út Grænmetisverzlun landbúnaðarins, verst ræmdu einokunarstofnun landsins, sem hefur hvað eftir annað verið staðin að ofbeldi gagnvart neytendum.

Nú síðast er Framleiðsluráð landbúnaðarins að reyna að tefja fyrir, að einstakir kartöflubændur selji afurð sína beint til stórverzlana. Það svarar ekki leyfisbeiðnum til að vinna tíma fyrir Grænmetisverzlunina til að setja dreifikerfi sitt fyrst í gang.

Framleiðendur og neytendur eiga enga vörn í hinu pólitíska kerfi, sem hefur slegið skjaldborg um spillinguna í Framleiðsluráði landbúnaðarins. En neytendur eiga þó einn mótleik í stöðunni, ef þeir hafa siðferðilegan styrk til að fara í stríð við kerfið.

Neytendur geta neitað að skipta við gæludýr Framleiðsluráðs. Þeir geta skipt við óháða framleiðendur, sem ekki selja undir merkjum Ísfugls, Íseggs og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Þeir geta sprengt kerfið, ef þeir vilja og þora.

Jónas Kristjánsson.

DV