Framsókn fann ekki botninn

Greinar

Hinn nýi og hressi formaður sjónvarpsauglýsinga Framsóknarflokksins var horfinn á sunnudagsmorgni eftir atkvæðatalninguna. Síðan höfum við séð á skjánum þreytulega og áreiðanlega formanninn, eins og kjósendur vilja hafa hann. En þá var það orðið um seinan.

Framsóknarflokkurinn tapaði í senn á suðvesturhorninu og í strjálbýlinu. Í Reykjavík tapaði hann þriðjungi fylgisins og fjórðungi á Reykjanesi. Annars staðar var hlutfallslegt tap flokksins minna, en þó tapaði hann þremur þingmönnum vestan lands og nyrðra.

Framsóknarflokkurinn er orðinn 10% flokkur í Reykjavík og 18% flokkur á landinu í heild. Hann verður einn af litlu flokkunum á því kjörtímabili, sem er að byrja. Sem ríkisstjórnarflokkur mun hann eiga erfitt með að bæta stöðuna að fjórum árum liðnum.

Nýju flokkarnir eru komnir til að vera og munu halda áfram að angra Framsóknarflokkinn. Samfylkingin mun ná vopnum sínum og sækja að honum á miðjunni og Græna vinstrið mun höggva úr honum í byggðamálum alveg eins og það gerði í þessum kosningum.

Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin eyddu mestum peningum í kosningabaráttuna og Framsóknarflokkurinn eyddi langmestum peningum allra flokka á hvern kjósanda sinn. Herferðirnar voru hannaðar af ímyndarfræðingum, báru þess merki og fóru út um þúfur.

Kjósendur áttu bágt með að trúa, að Framsóknarflokkurinn, sem verið hefur aðgerðalítill í ríkisstjórn við að bjarga ungu fólki úr sollinum, ætli að sletta einum af hinum frægu milljörðum sínum í fíkniefnavarnir. Kjósendur tóku þessa fullyrðingu mátulega alvarlega.

Kjósendur þökkuðu Sjálfstæðisflokknum það, sem vel var gert á síðasta kjörtímabili og trúðu ekki loforðum Framsóknarflokksins um milljarð hér og þar. Þeir söknuðu líka gamla formannsins og trúðu ekki leikaranum, sem lék nýjan og hressan formann flokksins.

Í fjölmenninu í Bandaríkjunum er hægt að hanna persónur og stofnanir án nokkurs samhengis við innihaldið, samanber Clinton Bandaríkjaforseta. Hér í fásinninu og návíginu er slíkt margfalt erfiðara. Þetta skildu ekki ímyndarfræðingar Framsóknarflokksins.

Fleiri vandamál steðja að flokknum. Fólk er farið að spyrja, hvaðan honum komi tugmilljónir til að heyja margfalt dýrari kosningabaráttu en áður hefur þekkzt hér á landi. Fæstar þeirra koma frá flokksmönnum eða af Alþingisfé. Flestar koma frá huldumönnum.

Um leið hefur Sverri Hermannssyni tekizt að benda á, að formaður Framsóknarflokksins er sjálfur meiri háttar kvótaerfingi, sem hefur hagsmuni af viðgangi kvótakerfisins, sem hann hefur sjálfur komið á fót. Þetta er staðreynd, sem hér eftir mun aldrei gleymast.

Það eru engar dylgjur að benda á þær tvær staðreyndir, að kosningabarátta Framsóknarflokksins var að umtalsverðu leyti kostuð af ótilgreindum aðilum og að formaður flokksins er stórerfingi að kvóta. Þetta eru atriði, sem kjósendur höfðu í huga og munu áfram muna.

Framsóknarflokkurinn hefur með ósigri sínum í kosningunum engan veginn fundið botninn. Hann þarf áfram að stríða við afleiðingar frétta af hagsmunatengslum, langvinnrar stjórnarsetu og berangursins á miðju stjórnmála, þar sem keppinautar sækja að honum.

Eina bótin í þessu máli er, að formaðurinn er sloppinn úr klóm ímyndarfræðinga og fær núna eftir kosningar að koma fram í sjónvarpi eins og honum er eðlilegt.

Jónas Kristjánsson

DV