Framsókn við völd

Greinar

Í Rússlandi hefur verið mynduð ríkisstjórn í anda Framsóknarflokksins, svipuð þeirri og var í Sovétríkjunum á valdaskeiði Gorbatsjovs. Einkenni stjórnarstefnunnar er miðstýring og verndun gamalla stórfyrirtækja á borð við Samband íslenzkra samvinnufélaga.

Þetta er ekki hinn norræni millivegur sósíalisma og kapítalisma, heldur sá millivegur, sem bezt er kenndur við Framsóknarflokkinn. Munur hans og norræna millivegarins er, að í stað áherzlunnar á velferð heimilanna kemur áherzla á velferð fortíðargreina í atvinnulífi.

Þessi stefna hefur löngum verið tærust hjá hinum íslenzka Framsóknarflokki, þótt hún sé í reynd rekin af öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi, þar á meðal þeim, sem eru við völd um þessar mundir. Við þurfum því ekki að verða hissa, þótt Rússar fari sömu millileið.

Gorbatsjov tókst ekki að ná árangri með aðferðum Framsóknarflokksins. Tsjernomýrdín forsætisráðherra og Jeltsín forseta mun ekki takast það heldur. Framundan er því kreppa og frekari skerðing lífskjara í Sovétríkjunum, með tilsvarandi óánægju og ókyrrð almennings.

Styrkir, niðurgreiðslur og uppbætur til gamalla atvinnugreina og hefðbundinna stórfyrirtækja munu soga til sín og brenna upp fjármagn, sem ella hefði verið hægt að nota til að létta líf fólks. Þetta er næstum því nákvæmlega hið sama og verið er að gera á Íslandi.

Framsóknarflokkarnir fjórir eða fimm á Íslandi hafa komizt upp með þetta, af því að þjóðin hefur grætt góðan pening á tveimur heimsstyrjöldum og einu kaldastríði. Rússar hafa hins vegar ekki efni á að fara þessa leið, enda eru engir happdrættisvinningar þar í umferð.

Rússar lentu í þessari blindgötu millileiðar, af því að hinir vestrænt sinnuðu hagfræðingar, sem Jeltsín hafði aðallega stuðzt við, voru minni stjórnmálamenn en hagfræðingar. Þeir gátu ekki komið sér saman um framboðslista og voru ekki miklir bógar í kosningabaráttu.

Eftir kosningar tók steininn úr, því að þeir létu þær sér ekki að kenningu verða og þjöppuðu sér ekki saman, heldur misstu frumkvæðið í hendur miðjumanna, sem standa bak við hinn nýja forsætisráðherra. Sem forseti getur Jeltsín ekki annað en tekið tillit til þessa.

Að undanförnu hefur efnahags- og peningastjórn í Rússlandi verið sérkennileg blanda, þar sem framsóknarmenn á borð við Tsjernómýrdín forsætisráðherra og hreinir afturhaldsmenn á borð við Gerashtsjenko seðlabankastjóra hafa spyrnt við fótum og spillt umbótum.

Nú verður ekki lengur hægt að kenna markaðsmönnum á borð við Gajdar og Fjodorov um það, sem aflaga fer í Rússlandi. Þeir eru flúnir úr ríkisstjórn. Miðjumennirnir verða framvegis sjálfir að svara fyrir rándýrar gerðir sínar, án þess að geta falið sig bak við markaðsmenn.

Öll er þessi breyting frá vestrænu til austrænu í samræmi við vilja þjóðarinnar, sem kom fram í þingkosningunum. Þjóðin hafði ekki úthald til að þola hremmingar markaðsvæðingarinnar og kaus öryggi í faðmi miðstýringarmanna, sem lofuðu vernd og varðveizlu.

Miðjumennirnir eru að taka upp harðari þjóðernisstefnu til að verjast gagnrýni hins geðbilaða Zhírínovskís og til að ná í lausafylgi, sem rann til hans á síðustu dögum kosningabaráttunar. Þess vegna verður Rússland verri nágranni en verið hefur undanfarin misseri.

Þegar Rússar fara að átta sig á getuleysi Framsóknar, munu sumir hallast að þjóðrembu og aðrir að markaðsstefnu. Óvíst er, hvor stefnan taki við af Framsókn.

Jónas Kristjánsson

DV