Framúrstefnumenn.

Greinar

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum kosnir í nefndina, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru kosnir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Þessi þunga og markvissa rökhyggja kom nýlega fram í blaðaviðtali við fyrrverandi Blöndusamráðs-nefndarmann í Svínavatnshreppi. Hann neitar þess vegna að víkja fyrir nýjum mönnum, sem kosnir hafa verið af nýrri hreppsnefnd.

Kosturinn við þessa framkvæmd mála, að mati nefndarmannsins fyrrverandi, er, að “við munum þess í stað vinna þannig að málum, að þau leysist farsællega, bæði fyrir okkur sveitungana, okkar nágrannasveitir og þjóðina alla”.

Það er víðar en í Svínavatnshreppi, að heimur versnandi fer. Hvarvetna taka verri nefndir við af skárri, verri sveitarstjórnir og verri landsstjórnir. Nefndarmaðurinn fyrrverandi hefur fundið einfalt og algilt ráð til varnar þessu.

Þannig hefði Sigurjón Pétursson, fyrrverandi forseti borgarstjórnar í Reykjavík, getað hætt að hafa áhyggjur af stefnubreytingu nýs meirihluta með tilheyrandi útstrikun Rauðavatnsbyggðar og Íkarusvagna. Hann gæti hafa sagt:

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum kosnir í borgarstjórn, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru kosnir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Að vísu er orðið of seint fyrir Sigurjón að neita að standa upp fyrir Albert. En Gunnar Thoroddsen getur, ef á þarf að halda, brugðið á ráð fyrrverandi nefndarmannsins úr Svínavatnshreppi og neitað að standa upp, – með þessum orðum:

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum valdir í ríkisstjórn, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru valdir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Kosturinn við þetta væri náttúrlega hinn sami og norður í Svínavatnshreppi: “Við munum þess í stað vinna þannig að málum, að þau leysist farsællega, bæði fyrir okkur stjórnarsinnaða sjálfstæðismenn, okkar þjóð og heim allan.”

Slík vinnubrögð mundu auðvitað spara þjóðinni mikinn kostnað, mikla hugaræsingu og miklar kollsteypur í kosningum. Allir þeir, sem fyrir eru, mundu sitja áfram og koma á þann hátt í veg fyrir, að heimur versnandi fari.

Svo myndast um leið möguleikar á, að alls konar áhugamenn, sem betur vita en hinir, geti gripið fram fyrir hendur ráðamanna, er ekki standa sig nógu vel. Á þessu hafa áttað sig framkvæmdastjórar og stjórnarmenn Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs.

Þeir hafa eins og aðrir þungar áhyggjur af tilraunum ríkisstjórnar og alþingis til “að tefja framgang mála og þæfa þau” á sviði vegagerðar. En þeir Rauðarárstígsmenn eru hugmyndaríkari en svo, að þeir láti slíka smámuni standa í vegi.

Þeir komu saman og ákváðu að verja sjö milljónum króna af fé Byggðasjóðs til vegaframkvæmda, umfram þær þrjátíu milljónir, sem sjóðurinn á að borga samkvæmt vegaáætlun alþingis. Þeir vissu, að þetta var “affarasælast”.

Ef ríkisstjórnin heldur áfram að þrjózkast við “að tefja framgang mála og þæfa þau”, er líklega “affarasælast”, að Byggðasjóðsmenn fari norður og sæki nefndarmanninn fyrrverandi til að leysa þessi mál “farsællega”, bæði fyrir …”.

Jónas Kristjánsson.

DV