Franska neistann vantaði

Veitingar

Klassísk matreiðsla frönsk er móðir vestrænnar matreiðslu. Því er við hæfi, að loks er hún komin til Reykjavíkur. Hjá Rendez-Vous á Klapparstíg, þar sem áður var Pasta Basta. Allt er franskt, kokkur og þjónn, ekkert gervi. Staðurinn er lítill, viðmót gott og matreiðsla frambærileg. Fín tilbreyting frá nýklassíkinni, sem kennd er í kokkaskólanum. Verðið er hátt miðað við gæði, 1500 krónur for-, 3000 krónur aðal- og 1400 krónur eftirréttur. Brauð og vín, laxakæfa og Lóthringen-baka, andabringa og smjörsilungur, pönnukaka og karamellubúðingur: Ok, en franskan neista vantaði. Nema í fínum silungi.