Frekjur haltra af velli

Greinar

Það kemur ekki á óvart, að fjárfestar í Reyðaráli hafa áttað sig á, að þeir væru á villigötum með þrepabyggt álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með uppistöðulóni á Eyjabökkum. Þeir voru síðastir allra til að átta sig á, að dæmið gekk alls ekki upp fjárhagslega.

Um og eftir áramótin hafa opinberlega komið fram skýr gögn og útreikningar, sem sýna, að hvort tveggja er óhagkvæmt, 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með Eyjabakkalóni. Baráttumenn framkvæmdanna hafa ekki átt svör við þessu.

Norsk Hydro var þar að auki viðkvæmt fyrir gagnrýni í Noregi á aðild fyrirtækisins að mesta umhverfisslysi nútímans hér á landi. Forráðamenn þess voru fyrir löngu byrjaðir að draga í land með sífellt dauflegri yfirlýsingum um fjárhagslega hlutdeild sína.

Á endanum var málið komið í þá stöðu, að ráðamenn lífeyrissjóða landsmanna áttu að bera fjárhagslega höfuðábyrgð á framkvæmdum, sem hefðu rústað væntingar sjóðfélaganna um áhyggjulaust ævikvöld. Þeir sáu ljósið síðastir allra og sögðu að lokum pass.

Á þessum tímamótum er lærdómsríkt að líta yfir furðulegan feril málsins, frekjuna og offorsið, sem einkenndi það allan tímann. Ástæða er til að undrast, að Landsvirkjun skuli hafa varið milljörðum til undirbúnings framkvæmda, sem fjárfestar hafa nú hafnað.

Í ljós kom, að Landsvirkjun hefur ekki hæfa reiknimeistara til að meta fjárhagshliðar ýmissa virkjunarkosta. Starfsmenn stofnunarinnar, sem tóku þátt í umræðunni í vetur, urðu sjálfum sér og stofnuninni til skammar. Eitthvað mikið er að á þeim bæ.

Ekki er minni ástæða til að efast um dómgreind ríkisstjórnar, sem ólmaðist eins og naut í flagi, hafnaði öllum málamiðlunartilraunum, keyrði út á yztu nöf á gráu svæðunum, hafnaði lögformlegu umhverfismati og klauf þjóðina í tvær andstæðar fylkingar.

Sérstaklega er athyglisverð staða Framsóknarflokksins, sem er systurflokkur mjög grænna, norrænna miðflokka landsbyggðarinnar. Hér hefur þessi flokkur hins vegar gerzt and-grænn, nánast svartur, og er sem óðast að tapa fylgi sínu yfir til vinstri grænna.

Hvaða dómgreindarskortur knúði þrjá ráðherra Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra, umhverfisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðaherra til að smíða sér pólitískar líkkistur á þennan hátt? Hvernig gat kjördæmispot eins þeirra leitt þá í slíkar ógöngur.

Raunar varð ósigur þeirra ljós um leið og þáverandi iðnaðarráðherra lagðist beinlínis niður í sína pólitísku líkkistu og lét flytja sig á elliheimili pólitíkusa í Seðlabankanum. Samt héldu hinir tveir áfram að þylja gömlu klisjurnar í vaxandi vonleysi.

Eftir meira en þriggja milljarða króna útgjöld Landsvirkjunar er málið komið aftur á byrjunarreit. Eyjabakkalónið er endanlega úr myndinni og allar framkvæmdir verða að sæta lögformlegu umhverfismati, sem ríkisstjórnin hafði svo mikið fyrir að hindra.

Fram undan er önnur borgarastyrjöld í umhverfismálum og í það skiptið um verndun stærsta ósnortna víðernis í Evrópu. Þjóðin á eftir að taka afstöðu í þeirri deilu, en nú þegar er ljóst, að í þeim umgangi neyðast stjórnvöld til að fara eftir settum leikreglum.

Þeir, sem nú hafa verið staðnir að peningaaustri, röngu fjármunamati, kjördæmispoti og pólitískri frekju, munu koma haltrandi til þeirrar styrjaldar.

Jónas Kristjánsson

DV