Fremstaver

Frá Kjóastöðum í Biskupstungum að fjallaskálanum Fremstaveri sunnan undir Bláfelli.

Ekki þarf að fara um Kjóastaðaland á þessari leið. Er þá fylgt bílvegi hjá Gullfossi og fossinn skoðaður í leiðinni.

Þetta er syðsti leggur hins sögufræga Kjalvegar. Útsýni er bezt, þegar leiðin er farin til norðurs. Fyrst er farið um vel gróna haga Kjóastaða og síðan um auðnir Tunguheiðar beggja vegna Sandár. Leifar gamla vegarins sjást bezt við Lágumýri, þar sem slóðin er niðurgrafin á nokkrum kafla. Bláfell er helzta kennileiti svæðisins, 1204 metra hár móbergsstapi. Þar bjó Bergþór tröll, að því er segir í þjóðsögum. Tignarlegar eru skörðóttar Jarlhettur í norðvestri í jaðri Langjökuls. Þar nær Tröllhetta 943 metra hæð.

Förum frá Kjóastöðum norðvestur gamla Kjalveg um Brúarheiði í Kjóastaðalandi, um hlið úr landi Kjóastaða og áfram um Lágumýri, þar sem gamla, niðurgrafna reiðleiðin sést vel. Þar er eyðibýlið Hólar. Síðan förum við um malarnámur að Tungufljóti. Þar við Stapa beygjum við til suðausturs að þjóðvegi 35 um Kjöl. Að mestu fylgjum við veginum norðaustur að Hvítá, en styttum stóran krók af honum byggðamegin brúar á Sandá. Undir Kattarhrygg förum við yfir á heimreið að skálanum í Fremstaveri sem er í 280 metra hæð undir Bláfelli.

23,4 km
Árnessýsla

Skálar:

Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417
Sandbúðahótel: N64 24.160 W20 03.070.

Nálægir ferlar: Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Hagavatn, Farið, Bláfellsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson