Frestað ferð til Ísraels

Greinar

Mike Harari var handtekinn í innrás Bandaríkjahers í Panama. Hann var nánasti aðstoðarmaður harðstjórans Manuel Antonio Noriega. Áður var hann yfirmaður í leyniþjónustu Ísraels og stóð meðal annars vegna mis skilnings fyrir morði á arabískum þjóni í Noregi.

Annar Ísraeli leitaði á náðir sendiráðs Páfastóls í Panama. Það er Eliezer Ben Gaitan, sem var yfirmaður hallarvarða Noriegas harðstjóra. Þessir tveir menn eru dæmi um allmarga ísraelska leyniþjónustumenn, sem hafa þjónustað harðstjóra í Suður- og Mið-Ameríku.

Yfirleitt standa þessir glæpamenn frá Ísrael í sambandi við leyniþjónustu heimalandsins. Harari var í senn flæktur í eiturlyfjaverzlun Noriegas og milligöngumaður í samskiptum Panama og Ísraels. Hann er dæmi um skaðleg áhrif Ísraels á stjórnmál í öðrum löndum.

Með falli Nicolae Ceausescu, harðstjóra í Rúmeníu, missti Ísrael helzta vin sinn í Austur-Evrópu. Ceausescu var eini stjórnandinn í Austur-Evrópu, sem skiptist á sendiherrum við stjórnendur Ísraels og var milligöngumaður í samskiptum Ísraels við ríki Austur-Evrópu.

Stjórn Ísraels hefur lagt sig fram í samskiptum við harðstjóra af ýmsu tagi, sem hafa einangrazt á alþjóðavettvangi. Hún hefur sérhæft sig í vopnasölu til ýmissa þeirra, sem fá þau trauðlega annars staðar. Fremst í þessum hópi eru stjórnendur Suður-Afríku og Eþíópíu.

Amnesty hefur reynzt góð heimild um mannréttindabrot víða um heim. Í nýútkominni skýrslu samtakanna um Ísrael er sagt, að hermenn og öryggisverðir í Ísrael séu hvattir til að beita skotvopnum gegn vopnlausum Palestínumönnum og þannig hvattir til manndrápa.

Þetta eru ekki nýjar harmafréttir. Á rúmlega tveimur árum hefur að meðaltali einn Palestínumaður fallið á degi hverjum fyrir skotvopnum Ísraelsmanna. Flestir hinna drepnu eru unglingar, sem gefið er að sök að hafa verið með grjótkast eða munnlegan skæting.

Ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum kemur fram í ótal myndum. Ef einn í fjölskyldu er grunaður um gæzku, er jarðýtum beitt á heimili allrar fjölskyldunnar. Með skattlagningu og skipulegri eyðileggingu uppskeru er reynt að kúga íbúana til hlýðni.

Aðferðir Ísraelsmanna eiga sér nákvæma fyrirmynd í sögu 20. aldar. Öryggissveitir Ísraels haga sér eins og Gestapó í síðari heimsstyrjöldinni og herinn hagar sér eins og Schutzstaffeln. Hryðjuverk ríkisins hafa afmyndað þjóðfélagið í stíl Þúsund ára ríkis Hitlers.

Vaxandi meirihluti kjósenda í Ísrael styður stjórnmálaflokka, sem keyra ríkið áfram á veginum til vítis. Það eru ekki aðeins nokkrir stjórnmálaflokkar, sem bera ábyrgð á glæpunum, heldur ísraelska þjóðfélagið í heild. Það hefur látið atburðarásina spilla sér.

Aðrir þátttakendur í ábyrgðinni eru einkum Bandaríkin, sem áratugum saman hafa haldið Ísrael uppi fjárhagslega og styðja það leynt og ljóst á stjórnmálavettvangi, þótt það valdi Vesturlöndum margvíslegum vandræðum í nauðsynlegum samskiptum við heim íslams.

Ísland má sem ríki ekki taka þátt í ábyrgðinni á hryðjuverkaríkinu Ísrael. Nógu vont er, að formaður stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi asnist í opinbera ferð til glæpamannanna, þótt ekki bætist þar á ofan, að utan ríkisráðherra okkar sé að spóka sig hjá þeim.

Þess vegna er fagnaðarefni, að frestað skuli hafa verið sneypuför Jóns Baldvins Hannibalssonar til Ísraels. Vonandi verður henni frestað um langa framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV