Mannaskipti í ríkisstjórninni sýna viðleitni, einkum Sjálfstæðisflokksins, til að mæta þreytu kjósenda og fylgistapi flokkanna. Valin var óvenjuleg leið með skilgreindu ferli hálft annað ár fram í tímann og jafnvel lengur. Vafalaust er leiðin valin til að milda áhrif hennar á einstaka málsaðila. Það þýðir, að þegar kemur að einstökum breytingum, eru þær viðbrögð við löngu liðnum atburðum, en ekki við verkefnum og atburðum líðandi stundar. Fyrir bragðið sitja sumir eins og lamaðar endur í embættum sínum og aðrir sitja í festum til jafnlengdar. Þetta auðveldar þrýstihópum að hafa áhrif á ráðuneytin og gerir ráðuneytunum erfiðara fyrir um varnir gegn þrýstihópum. Enda eru þess fá dæmi í nálægum löndum, að ráðherraskipti fari fram á þennan frestaða, langvinna hátt.